Sunday, January 09, 2005

Ekkert um flugvöllinn

Egill Helgason birti í gær nýjan pistil á visir.is. Hann minnist ekki einu orði á flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Ég vona að Egill sé ekki búinn að gefast upp á baráttunni, henni má aldrei linna. Sjálfur hef ég ekki þrek til að standa í þessu einn.

Saturday, January 08, 2005

Sigurhugtakið

Guðmundur Steingrímsson segir að STAÐFESTA sé sigurvegarinn í hugtakakeppni síðasta árs. Gott að vera í sigurliðinu.

Wednesday, January 05, 2005

Platon ríður húsum

Fyrir margt löngu var uppi á dögum í Grikklandi maður sem hét Platon. Hann skrifaði margar bækur og var mikill besservisser.

Platon var heildarhyggjumaður. Hann þeirrar skoðunar að taka ætti ung börn af foreldrum sínum og uppeldi þeirra skyldi vera í höndum ríkisins. Þar með mætti uppræta öll mein samfélagsins. Hugmyndir hans þykja fáránlegar nú til dags. Eða hvað? Erum við e.t.v. stödd ekki svo fjarri hugsýn Platons? Getur verið að sporgenglum hans, heildarhyggjumönnunum, hafi tekist að byrla okkur hugmyndum hans svo lítið bæri á?

Bæði biskup og forsætisráðherra gerðu upplausn fjölskyldunnar að umtalsefni í áramótaávörpum sínum. Þeir bentu á að uppeldi barna væri „outsourced“, það væri fengið aðilum utan fjölskyldunnar - oftast opinberum aðilum. Þar eru hreinar sálir saklausra barna okkar mótaðar og þar er tekið fram fyrir hendurnar á foreldrunum. Þetta er ekki svo fjarri því sem Platon vildi!

Egill Helgason ritar í dag snilldar grein um borgarmálin. Þar heldur hann fram frjóum hugmyndum sem allt of sjalnast heyrast:

„Sjálfstæðismenn ættu að taka sig taki og reyna að koma fram sem nútímalegt, borgarmiðað stjórnmálaafl - leggja fram alvöru hugmyndir um eflingu borgarsamfélagsins, uppbyggingu Vatnsmýrarinnar, hvernig og hvert borgin á að vaxa. Til dæmis má hæglega tengja þetta við umræðuna um hnignun fjölskyldunnar. Betra skipulag þýðir minni þeyting milli fjarlægra bæjarhluta, meiri tíma til að vera með fjölskyldunni, minni upplausn.“