Saturday, March 26, 2005

Páskar og píslir

Fjölskyldan lifði sig inn í píslir krists gær. Tókum daginn snemma og höfðum andakt. Sonur minn spurði hvort hann mætti ekki taka píslirnar út með því að fara í líkamsræktarstöðina og erfiða. Í fyrstu taldi ég það í lagi en svo áttaði ég mig á því að hann færi í endorfínvímu og myndi upplifa sæluástand og þá þvertók ég fyrir það.

Fjölskylda fór svo í kirkju og hlustaði á upplestur Passíusálma séra Hallgríms.

Ég verð svo reiður að ég gæti næstum grátið þegar ég les um unga menn sem hreykja sér af hegispjöllum.

Á morgun fögnum við upprisunni.

Tuesday, March 01, 2005

Örn Sigurðsson arkitekt

það er stutt en mjög athyglisvert viðtal við Örn Sigurðsson arkitekt á blaðsíðu 14 í Fréttablaðinu í dag. Þar ræðir hann um kosti þess að flytja flugvöllinn burt og byggja í Vatnsmýrinni. Sjálfur hef ég oft haldið þessu fram. Þá væri hægt að þróa áfram þann vísi að menningarlegri borg í Reykjavík sem kom fram snemma á síðustu öld samhliða ört vaxandi borgarastétt. Eins og allir vita þá lenti allt í ógöngum þegar líða tók á öldina. Ósmekkleg úthverfi með tilheyrandi skríl og ómenningu stöðvuðu allar þróun. Þótt mér sem gildum íhaldsmanni sé það þvert um geð þá verður að viðurkenna að það er R - listinn sem hefur reynt að snúa þessari öfugþróun við.

Örn bendir á, í þessu stutta en kjarnyrta viðtali, að Vatnsmýrin sé 200 milljarða virði. Þetta verðmæti er ekki einvörðungu falið í landinu sem fer undir nýjar byggingar. Verðæti fasteigna frá „Kringlumýrarbraut og niður að Hofsvallagötu munu hækka um 15 í kjölfar byggðar í Vatnsmýrinni“. Það gerist vegna þess að þétt menningarborg, miðstöð stjórnsýslu, fjármála, menningar og verslunar, þar sem arðbærasta starfsemin í samfélaginu fer fram, er verðmætari en dreifðar blokkarbyggingar úthverfanna. Þetta hef ég bent á áður.

Þetta myndi blessunarlega hafa það í för með sér að skörp skil yrðu á milli Borgarinnar með stórum staf og svo úthvefanna og fólksins sem þar lifir.

En það er ekki nægjanlegt að byggja í Vatnsmýrinni. Það þarf líka að koma í veg fyrir að druslað verði upp svokölluðum „mislægum gatnamótum“ við Kringlumýrarbraut.