Friday, December 31, 2004

Gott viðtal

Ég get nú ekki sagt að ég taki að öllu jöfnu mikið mark á þessum auglýsingasnepli sem eigandi smásöluverlsunar einnar hér í borg lætur bera í öll hús.

Í Fréttablaðinu í dag er hins vegar athyglisvert viðtal við unga konu sem hefur haslað sér völl í kaupmennsku í miðborginni. Þar selur hún ýmis konar fallegan varning sem gleður hugi fólks með fágaðan smekk.

Hún lýsir viðhorgsbreytingu sem átt hefur sér stað í hennar lífi. „Áður fyrr hataði ég Ísland en það var bara af því að ég var ekki ánægð sjálf. Það sem spilaði eflaust inn í er að þá bjó ég í Breiðholti, núna er ég komin í miðbæðinn og búin að öðlast innri ró.“

Segir þetta ekki allt?

Wednesday, December 22, 2004

Ég er ekki einn!

Egill Helgason ritar enn um flugvöllinn og andmælir þeim áróðri sem utanbæjarfólk rekur í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að við getum áfram búið við blómlegu miðborgina okkar og hún fái að þroskast til jafns við aðra þætti samfélagsins.

Það er ánægjulegt að fylgjast með málefnalegri staðfestu Egils í þessu máli. Stundum finnst mér eins og Egill lesi huga minn svo sammála er ég því sem hann ritar sbr ýmis fyrr skrif mín.

Um daginn ritaði ég hér á „bloggið“ um gullið sem borgarbúar eiga í Vatnsmýrinni. Egill færir sterk rök fyrir því að verðmæti Vatnsmýrarinnar sé mun meira en áður hefur verið talið. „Eftir að komst á aukið frelsi í húsnæðisviðskiptum kann landið þar að vera miklu verðmætara en margan hugði.“

Egill stingur líka með snilldarlegum hætti upp í norðlenskan prófessor sem fyrir nokkrum dögum ritaði grein í dagblað hér í borg og lýsti ánægju sinni með það hve þægilegt væri að fá sér morgunkaffi á Oddeyrinni, fara svo í flugvél til Reykjavíkur og vera kominn aftur norður fyrir kvöldmat! Egill jarðar rök prófessorsins þegar hann segir að „ef flugvöllurinn hefði svipaða staðsetningu á Akureyri og í Reykjavík væri enginn Oddeyri - þar væri nefnilega flugvöllur.“ Málið er nefnilega það að Vatnsmýrin er einhver ákjósanlegasti vettvangur heimsborgaramenningar á sama hátt og Oddeyrin.







Sunday, December 19, 2004

Ungt utanbæjarskáld

Ég hélt satt að segja að utanbæjarskáldin væru liðin tíð. Hélt satt að segja að landsbyggðin gæti ekki af sér neina andansmenn lengur. Þar byggu fyrst og fremst útlendingar sem störfuðu við frumvinnslu, byggingarvinnu og fiskvinnslu og eitthvað svoleiðis.

En ungt utanbæjarskáld gerir skoðanir Egils Helgasonar um Reykjavíkurflugvöll að umræðuefni. Skáldið reynir að gera lítið úr þeirri lausn sem brotthvarf flugvallarins verði fyrir borgarsamfélagið. Það segir:

„Ég hef það aðallega á tilfinningunni að reykvíkingar séu svona skítóánægðir með miðbæinn sinn, að þetta sé eitt af síðustu hálmstránum - það verði hægt að stækka miðbæinn og þá hljóti hann að batna. Þetta er svona álíka lausn og álverið fyrir austan - því rétt eins og það var skortur á vinnuafli fyrir austan (en ekki skortur á vinnu), þá skilst mér að þjónustufyrirtæki flýji þennan litla miðbæ sem er í borginni fyrir - helst lengst upp í sveit. Meira pláss til að klúðra er ekkert sem bjargar miðbænum.“

Hér talar öfund utanbæjarmannsins gagnvart menningu borgarsamfélagsins. Eru reykvíkingar óánægðir með miðbæinn sinn? Ég hef áður tjáð mig um miðborgir og borgarsamfélag, s.s hér . Reykvíkingar eru stoltir af borginni sinn og þykir vænt um hana. Miðborgin blómstrar. Allar leiðir liggja til henna líkt og Rómar forðum. Þangað kemur fólk úr öllum áttum til að eiga viðskipti, hvort heldur til að kaupa sér trefil eða stór fjármagsviðskipti. Þar kemur fólk saman til að gera sér glaðan dag á fáguðum veitingastöðum og þar er miðstöð menningar og lista. Þar er deigla menningarinnar.

Ungskáldið segir:

„Eitt af því sem skilgreinir höfuðborg er að til hennar liggja allar aðalsamgönguæðar ... Þjóð sem tryggir ekki öruggar og góðar samgöngur við höfuðborg sína, á enga höfuðborg. Slík þjóð á bara borgríki innan landsteinanna.“

Þetta er rétt svo langt sem það nær. Reykjavíkurflugvöllur gegndi þessu hutverki á árum áður. Þá þurftu bændahöfðingjar oft að reka erindi sín í höfuðborginni, þeir sátu gjarnan á þingi. Sama má segja um sýslumenn sem oft voru líka þingmenn, einnig útgerðarmenn. Þetta voru höfðingjar í héraði og þátttakendur við stjórn ríkisins. Þetta á ekki við um samtíman (vissulega er mikil eftirsjá eftir þessum gamla tíma).

Höfuðborgin er sjálfbærari en hún var áður. Uppspretta menningarinnar er í henni sjálfri, hún þarf ekki að sækja eins mikið utan frá og áður, hvorki til landsbyggðarinnar né útlanda. Það er því ekki þörf á flugvellinum lengur.

Fáguð borgarbyggð í Vatnsmýrinni mun tryggja að Reykjavík verður áfram sú heimsborg sem hún er.

Sunday, December 12, 2004

Hugsjónagúngan

Egill Helgason skrifaði athyglisverða grein á vefinn nú um helgina (hún birtist víst líka í DV en ég les það aldrei).

Það sem Egill gerir að umfjöllunarefni er eitt af mörgum hnignunareinkennum okkar litla samfélags. Nú er Morgunblaðið að flytja út í móa. Sú var tíðin að blaðið var hornsteinn samfélagsins, það var boðferi festu og réttsýni í málefnum samfélagsins og staðsett í hjarta borgarinnar við Aðalstræti.

Nú er allt breytt. Frjálslyndar skoðanir vaða nú uppi í blaðinu og það er orðið einn helsti vettvangur fyrir svonefndan „póstmódernisma“ sem nú veður uppi í samfélaginu. Betra væri að blaðið hefði staðið fastar á sínum hugsjónum.

Það er tímanna tákn að blaðið flytji út í móa. Blað allra landsmanna getur ekki verið á borgarjaðrinum (þvílíkt bull að halda því fram að þetta sé nær miðju höfuðborgarsvæðisins!!). Starfsemi af þessu tagi á ekki að vera innan um dekkjaverkstæði og smiðjur sem fólkið í úthverfunum starfar við. Hún þarf að vera nær menningunni þar sem fágað fólk býr og starfar.

Monday, December 06, 2004

Góður árangur Björns Bjarnasonar

Það er ánægjulegt að lesa um niðustöður rannsókna á námárangri grunnskólabarna. Fyrir nokkrum árum sýndi samsvarandi könnun að íslensk grunnskólabörn stóðu jafnöldrum sínum annars staðar í heiminum langt að baki í stærðfræði. Nú er annað uppi á teningnum. Það fer ekki á milli mála að styrkri stjórn menntamála undir forystu Sjálfstæðisflokksins er hér að þakka. Sérstaklega Birni Bjarnasyni fyrrverandi menntamálaráðherra og núverandi dómsmálaráðherra.

Wednesday, December 01, 2004

Breiðholtið

Lífið kemur manni á stundum á óvart. Ég hef fyrr í þessum pistlum mínum rætt úthverfin og þá úrkynjun sem þeim fylgir. Mig undrar því að niðurstöður skoðanakönnunar sem Gallup gerði sýna að fleiri styðja r-listann en sjálfstæðismenn í borginni í öllum hverfum nema í Breiðholti. Ég hafði einmitt haldið að í úthverfunum byggi smekklaus og ómenntaður lýður. Er það ekki rétt hjá mér að þaðan heyri maður helst fréttir af morðum og eiturlyfjum? Eitthvað verð ég að endurskoða viðhorf mín. Kann að vera að ég hafi haft rangt fyrir mér? Kann að vera að þarna búi fágað og vel gert fólk? Eða stendur Reykjavíkurlistinn fyrir eitthvað annað en ég hugði? Mér líst í öllu falli mjög vel á nýjan borgarstjóra eins og ég hef áður skrifað.

Tuesday, November 30, 2004

afturhaldskommatittir

Það er með ólíkindum hvað þessir vinstri menn geta endalaust reynt að gera lítið úr þeirri miklu kjarabót sem skattalækkanir ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar eru.

Í dag heyrði ég einn vinstrimann segja: "Hvernig kemur þetta út fyrir fimmtugan öryrkja sem drekkur einn pela af sterku víni á dag?"

Thursday, November 25, 2004

Þjóðsöngur

Alveg tek ég heils hugar undir málflutning þeirra framsæknu þingmanna sem lagt hafa fram þingsályktunartillögu um nýjan þjóðsöng. Þjóðsöngurinn, Ó, guð vors lands, er mörgum svo erfiður til söngs að afar hæpið er að hann geti að öllu leyti þjónað hlutverki sínu. Það er mikilvægt að þjóðsöngur hafa skýra og ótvíræða vísun til Almættisins. En það er ekki nóg. Hann þarf einnig að skýrskota til þjóðernis og þjóðernisástar, auk ástar á landinu. En síðast en ekki síst þarf lagið að vera grípandi, allir þurfa að gera tekið undir, að minnsta kosti í viðlaginu. Þingmennirnir víðsýnu og framsæknu benda á ljóðin og lögin við Ísland ögrum skorið og Ísland er land þitt, mér þykja það góðar hugmyndir. Einnig mætti athuga hvort "17. júní" gæti ekki sómt sér vel sem þjóðsöngur, það mætti lagfæra textan örlítið þannig að Almættið komi við sögu.

Wednesday, November 24, 2004

...lifa þar fáir og hugsa smátt

Ég les stundum vefsíðuna "deiglan.com". Mér þykir nú oftast sem þeir sem þar skrifa séu heldur frjálslyndir. Stundum hitta þeir þó naglann á höfuðið. Alveg er ég innilega sammála grein sem þar birtist í gær.

Þar er fjallað um brúarsmíði í Reykjavík. Um nokkra hríð hefur verið rætt um að leggja brú yfir Sundin. Það væri þarft framtak. Mér leiðist alltaf að aka í gegnum úthverfin þegar ég fer út úr bænum.

Deiglupenninn gagnrýnir mat Skipulagsstofnunar að lágreist brú innarlega í Kleppsvíkinni verði betri en kostur en háreist brú utarlega í víkinni. Þessu er ég sammála. Bæði er það slæmt að þurfa að langt austur eftir borginni til að komast að brúnni, í annan stað myndi stór og háreist brú frá Laugarnestanga og yfir á Kjalarnesið vera glæsilegt mannvirki sem gæti orðið tákn borgarinnar.

Tuesday, November 23, 2004

Ekki andlaust blogg

Margir hafa komið að máli við mig og haft orð á því að ég skrifi ekki nógu oft hér á "bloggið". Víst kann ég vel að meta þessa hvatningu og þann áhuga sem menn sýna skrifum mínum. Ég hef þó einsett mér að skrifa ekki nema ég hafi eitthvað markvert fram að færa. Mér þykir sem sumir "bloggarar" skrif á stundum til þess eins að skrifa og andleysi einkenna færslurnar. Þannig er það ekki með mig.

Sunday, November 21, 2004

Gull í mýrinni

Í gær þurfti ég að bíða nokkra stund á biðstofu. Þar var ekkert við að vera annað en lesa DV sem ég sé annars aldrei. Þar var vönduð grein eftir Egil Helgason sjonvarpsmann. Hann fjallar meðal annars um Vatnsmýrina og byggð þar í framtíðinni. Það er mikilvægt að Vatnsmýrin verði byggð sem fyrst svo við getum byggt heilbrigt samfélag vestan Snorrabrautar.

Vatnsmýrin er einhver mesta auðlind þjóðarinnar. Það er ekki gott að borgaryfirvöld skuli láta Landspítalanum fá landspildur endugjaldslaust tugmilljarða að verðmæti

Wednesday, November 17, 2004

Endanleg lausn grunnskólavandamálsins

Nú er grunnskólavandinn leystur, svona að nafninu til að minnsta kosti. Það er þó varla hægt að kalla þetta með réttu "lausn". Til þess hefur þessi samningur of slæmar afleiðingar fyrir samfélagið eins og ég hef áður bent á.

Ég held að það þurfi að nálgast vandann frá öðru sjónarhorni. Sum sveitarfélög eru eðlilega mun betur sett fjárhagslega en önnur. Þar býr fólk sem stundar verðmætaskapandi vinnu, greiðir hátt útsvar og há fasteignagjöld af dýrum eignum sínum. Það er því ekki eðlilegt að þetta fólk þurfi að líða fyrir það, með sífelldum verkföllum hjá sínum börnum, að önnur sveitarfélög geti ekki greitt kennurum laun.

Ég tel að réttast væri að fasteignagjöld og útsvar í hverju skólahverfi verði notað til rekstrar viðkomandi skóla. Í sumum hverfum býr fólk með góðar tekjur og á verðmætar fasteignir, fyrir vikið greiðir það hærra útsvar og fasteignagjöld. Það er ekki nema sanngjarnt að fólkið fái að njóta þess. Þessir skólar gætu borgað sínum kennurum betri laun.

Þarfir fólks eru mismunandi og við þurfum alltaf að huga að því í skipulagi að viðhalda ákveðnu jafnvægi. Sumt fólk kýs að búa í ódýru húsnæði í úthverfum, slíkt fólk leggur síður upp úr menntum svo sem einkunnir á samræmdum grunnskólaprófum sína, það er því engin þörf á að eyða miklu fé til skólahalds á slíkum stöðum. Aðrir kjósa að búa á betri stöðum, í hringiðu menningar og lista, og leggja meira upp úr menntun. Þar eru fasteignir verðmætar og þar greiðir fólk hærra útsvar. Þar eru því fyrir hendi fjármunir til að greiða kennurum nægjanleg laun til að þeir leggi ekki þráfaldlega niður vinnu. Á öðrum stöðum, þar sem útsvarstekjur eru lægri og verðmæti fasteigna minna og því minna fé til ráðstöfunar til skólanna, mætti ráða fólk sem sætti sig við heldur lægri laun enda væru ekki gerðar sömu kröfur.

Tuesday, November 16, 2004

Steinunn er víst góður borgarstjóri

Ýmsi, bæði vinir og kunningjar, hafa komið að máli við mig á förnum vegi og jafnvel haft samband símleiðis og kvartað við mig undan yfirlýsingum mínum um nýjan borgarstjóra.

Þeir hafa sagt að maður eins og ég geti ekki verið þekktur fyrir að lýsa yfir velþóknun á borgarstjóra r - listans.

Ég hef mótmælt og svarað fullum hálsi. Ég stend við fyrri yfirlýsingar. Steinunn Valdís er góður borgarstjóri. Auk þess að hafa staðið sig vel í skipulagsmálunum vil ég minna á að hún hefur sýnt mikla staðfestu í kennaramálinu.

Monday, November 15, 2004

Dónablogg

Mér er gjörsamlega ofboðið með skrifum af þessu tagi. Mér finnst þarna illa vegið að glæsilegum borgarstjóra. Þetta er ekkert annað en dónaskapur.

Saturday, November 13, 2004

Líst vel á nýjan borgarstjóra

Ég tók eftir því þegar ég las blaðið áðan að það er kominn nýr borgarstjóri í Reykjavík. Mér hefur ekki alls kostar líkað við það fólk sem setið hefur í því embætti um nokkurra ára skeið. Því er öfugt farið með þessa ungu konu sem nú er sest í borgarstjórastólinn. Mér líst ljómandi vel á hana. Sérstaklega kann ég við hugmyndir hennar og verk í skipulagsmálum borgarinnar, samanber fyrri skrif mín

Wednesday, November 10, 2004

Tíðindalaust

Það er með ólíkindum hvað lítt ber til tíðinda í samfélaginu um þessar mundir. Ég minnist ekki annars eins. Sveitarfélögin höfnuðum sem betur fer miðlunartillgöu sáttasemjara. Hún hefði sett allt á annan endan í hagkerfinu auk þess sem hún var siðlaus með öllu.

Saturday, November 06, 2004

Munur á siðferði

Það er athyglisvert að bera saman Bandaríkin og Evrópu þegar kemur að siðferði. Bandaríkjamenn velja sér mann í embætti forseta sem hefur kristin gildi í hávegum. Evrópska þingið hafnar manni í framkvæmdastjórn evrópusambandsins sem lýsir yfir kristnum gildum sínum.

Wednesday, November 03, 2004

Sigur siðferðisins

Það eru ánægjuleg tíðindi sem nú berast vestan frá Bandaríkjunum. Allt stefnir í að Bush forseti hafi hlotið kosningu öðru sinni.

Í Bandaríkjunum skipta siðferðileg gildi miklu máli í samfélaginu. Það er sjaldgæft að maður hitti betra og grandvara fólk en í þeim fylkjum þar sem Bush fór með sigur af hólmi. Þar hagar fólk atkvæði sínu á grundvelli siðferðis. Það skýrir án efa úrslitin sem nú liggja fyrir.


Monday, November 01, 2004

Álklaustur á Austurlandi

Það eru ángægjuleg tíðindi sem berast austan að landi. Í tengslum við byggingu nýs álvers hefur kviknað sú hugmynd að stofna klaustur. Um er að ræða munka af reglu heilags Kapúsín. Reglan helgar sig hugleiðingu fagnaðarerindisins og iðkar fátækt í lífsstíl, byggingu og búnaði húsa sinna og kirkna. Munkarnir störfuðu lengi í Slóvakíu, en klaustrum þeirra var lokað við valdatöku kommúnista.

Þeir sem hafa átt þess kost að ferðast um hina kristnu Evrópu hafa flestir átt þeirri gæfu að fagna að heimsækja klaustur. Víða hafa munkar helgað sig einhverri iðju samhliða helgihaldinu til að sjá sér farborða. Þannig eru til klaustur sem eru þekkt fyrir vínframleiðslu sína, önnur fyrir skósmíðar, trésmíði og þannig mætti lengi telja.

Það væri vel til fundið ef á Íslandi yrði stofnað klaustur sem gæti sér gott orð fyrir áliðju. Þar gætu munkarnir iðkað trú sína og helgihald jafnframt því sem þeir iðkuðu fátækt og stunduðu álbræðslu.

Sunday, October 31, 2004

Ánægjulegar skoðanir

Það er alltaf ánægjulegt þegar maður uppgötvar að maður er ekki eins einn í heiminum með skoðanir sínar og maður heldur. Þessi maður mælir af skynsemi.

Hættur framundan

Í næstu viku munu mikilvægir hlutir ráðast. Í fyrsta lagi mun stærsta lýðræðisþjóð veraldarsögunnar ganga að kjötborðinu og velja sér forseta. Við skulum öll sameinast í bæn um að Bush forseti verði valinn eins glæsilega og fyrir fjórum árum.

Í annan stað verða greidd atkvæði um miðlunartillögu Ríkissáttasemjara í vinnudeilu kennara. Það væri mjög óábyrgt af sveitarfélögum að samþykkja þessa tillögu.

Thursday, October 28, 2004

Annir og ótti

Það hafa verið miklar annir hjá mér á stofunni undanfarna dag. Það hefur komið í veg fyrir skrif mín á þessum vettvangi. Mér þykir það miður. Ég ætla að bæta úr því um helgina.

Nú heyrði ég í útvarpinu áðan að Ríkissáttasemjari hefði lagt fram miðlunartillögu. Ég hef satt að segja miklar áhyggjur af því að hún feli í sér gífurlegar launahækkanir til handa kennurum. Það kann að valda óbætanlegum skaða fyrir samfélagið. Jafnvel styrkasta ríkisstjórn á erfitt með að tryggja efnahagslegan stöðugleika undir slíkum kringumstæðum. Þar að auki hef ég almennar efasemdir um miklar launahækkanir kennara sbr fyrri skrif mín.

Tuesday, October 26, 2004

Átök í úthverfum

Ég las það í DV áðan að brostist hefðu út átök í einu úthverfanna á milli Íslendings og manns frá Mið-Austurlöndum. Segir þetta ekki allt sem segja þarf?

Monday, October 25, 2004

Móbíl þjóð

Íslendingar eru móbíl þjóð. Ég kysi heldur að hún væri stabíl. Það væri betra.
Hugum að sögunni. Iðnbyltingin ölli mikilli röskun á samfélaginu og högum fólks. Vissulega hafði hún ýmsa kosti, því verður ekki neitað, en fólk virðist ótrúlega fljótt að gleyma því illa sem af henni leiddi.

Áður en þessi „bylting“ reið yfir sat fólk að búum sínum og sinnti sínu. Því fylgdi sjaldnast flækingur og upplausn. Með iðnbyltingunni flosnaði fólk upp af búum sínum og flutti í soll borganna. Það líf sem þar var lifað veitti ekki ákjósanlega siðferðilega umgjörð. Þar seldu menn vinnuafl sitt hæstbjóanda í stað þess að standa sína plikt gagnvart búinu og landeiganda. Borgirnar urðu enda gróðrarstía siðspillingar og ólifnaðar. Þetta þekkjum við Íslendingar. Menn flosnuðu upp úr sveitinni og gerðust tómthúsmenn með tilheyrandi upplausn og siðspillingu. Lífið og starfið í sveitinni myndað umgjörð sem hlúði að siðlegri breyttni. Sennilega hefur það ýtt frekar undir þessa þróun hvað Íslendingar hafa ávallt verið móbílir. Þannig áttu menn það til að flakka yfir hálft landið til þess eins að fara á vertíð. Ákjósanlegra væri að menn hefðu verið stabílir og staðfastir.

Í Evrópu sneiddu menn hjá ýmsum vanköntum iðbyltingarinnar. Þar höfðu borgir þegar fest rætur áður en iðnvæðingin hófst. Borgir voru skipulagðar með þeim hætti að hverfin sem verkamennirnir bjuggu í voru í námunda við verksmiðjurnar. Verkamennirnir gengu því hæglega til vinnu sinnar. Þannig gátu heilu kynslóðirnar lifað án þess að þurfa að ferðast svo mikið sem í örfárra kílómetra radíus frá heimili sínu allt sitt líf. Þetta tryggði festu í samfélagsgerðinni og hindraði upplausn. Slátrarinn, bakarinn og grænmetiskaupmaðurinn sinntu viðskiptum á torgum hvert fólkið úr nágrenninu sótti bjargir sínar. Ekkert var um óþarfa flandur og lausung. Þannig var þetta langt fram á 20. öldina. Þá tók ógæfan að ríða yfir. Einkabíllinn svokallaði varð nauðsynlegur hlutur á hverju almúgaheimili. Fólki dugði þá ekki lengur að eiga sitt líf í sínu hverfi heldur tók að flandra um. Ferðast í aðra borgarhluta og á ströndina með tilheyrandi lausung.

Lausungin hefur hins vegar verið systir okkar Íslendinga alla tíð. Þvælingur og förumennska hefur því miður alltaf einkennt okkar samfélag. Þetta birtist ekki hvað síst í því hvernig bærinn okkar, hún Reykjavík, hefur verið togaður og teygður á alla enda og kanta. Þetta hefur svo leitt til samfélagslegrar úrkynjunar.

Saturday, October 23, 2004

Miklar annir

Það hafa verið miklar annir hjá mér á stofunni undanfarna daga. Þær hafa gert það að verkum að ég hef ekki séð mér fært að tjá mig á þessum vettvangi. En þátttaka í opinni umræðu er mér mikils virði enda opin umræða einn hornsteina samfélagsins.

Það er ýmis málefni sem ég þarf að að fjalla um. Kennaraverkfallið leiðir hugann að því hvort þessi hugmynd um skólaskyldu eigi yfir höfuð rétt á sér. Heimspekingurinn Platon kom fram með þær hugmyndir að ríkið sæi alfarið um uppeldi barna. Platon þessi hefur veitt róttæklingum innblástur fram á þennan dag. Hugmyndin um skólaskyldu er dæmi um það hvað hugmyndir Platons hafa náð mikilli fótfestu. Börn eru í raun tekin af foreldrum sínum og hið opinbera annast uppfræðslu þeirra og uppeldi. Það er fyllsta ástæða til að setja spurningu við þetta fyrirkomulag. Sú spurning verður áleitnari þegar hinu opinbera tekst ekki að reka þetta skammlaust.

Ég get farið nánar út í þau slæmu áhrif sem börn og ungmenni verða fyrir í skólanum. Bæði þann slæma félagsskap sem þau geta lent þar í en ekki síður þá mikli innrætingu sem þar fer fram. Geri það síðar.

Tuesday, October 19, 2004

Gamansemi

Það er ánægjulegt að vera þátttakandi í þeirri opnu umræðu sem fram fer á netinu. Hér geta menn skipst á skoðunum, "linkað" hverjir á aðra svo úr verður deigla hugmynda.

Nokkur viðbrögð hafa verið við skrifum mínum og kann ég því vel. Sumir hafa gert kímni mína eða "húmor" að umtalsefni. Til dæmis þessir, þessi, þessi og þessi gerði grín að umtalsefni í "kommenti" hjá mér um daginn.

Nú hef ég löngum vitað að ég er mikill "húmoristi", um það geta gamlir skólabræður vitnað og svo náttúrulega konan mín og sonurinn. Ég get setið tímunum saman og sagt gamansögur. Það kom mér nokkuð á óvart að menn fóru að gera kímni mína að umtalsefni, ég taldi mig ekki hafa farið neitt út í þá sálma á þessum vettvangi.

Mér sárnaði því nokkuð þegar mér skildist að einhverjir teldu að skrif mín væru einhvers konar grín. Vissulega eiga skoðanir eins og mínar ekki mikinn hljómgrunn í samfélaginu. Þó finn ég samhljóm með ýmsum t.d. Hauki Loga Karlssyni, Kolbrúnu Halldórsdóttur og íhaldsmanninum unga sem gert hefur samfélagslega úrkynjun að umtalsefni. Ég skil ekki af hverju sumir telja að ég sé að grínast. Eru skoðanir eins og mínar ekki teknar alvarlegar en það? Telja menn ef til vill að dómsmálaráðherrann sé líka að grínast? Er fokið í öll skjól?

Saturday, October 16, 2004

Agaleysi og illkvittni

Fjölskyldan fór í Smáralindina í gær. Úff. Þarna var öðru vísi fólk en maður sér og umgengst dags daglega. Það sem blasti við okkur þar voru hóparnir af illa hirtum börnum og unglingum, sennilega úr nærliggjandi úthverfum, sem virtust vera í fullkomnu reiðileysi í kennaraverkfallinu. Þau áttu það sameiginlegt að hárið var illa hirt og fötin sem þau gengu í voru furðuleg. Þótt fólk búi e.t.v. ekki við mikil efni þá finnst mér að það geti a.m.k. snyrt börnin sín áður en það sendir þau út. Einnig áttu börnin greinilega margt ólært um mannasiði.
Við áttum ekki langa dvöl þarna (þó of langa) og ég þvertók fyrir að konan keypti þessi móðinsföt á strákinn.


Í Fréttablaðinu í gær á blaðsíðu tvö var athyglisverð frétt með fyrirsögninni "Agaleysi og eltingaleikur í Egilshöll". "Egilshöll" er einhvers konar afþreyingarhús í útjaðri bæjarins sem hefur verið í fréttum undanfarið vegna áfengissölu. Í fréttinni segir frá aga- og reiðileysi barna vegna kennaraverkfallsins. Börnin brúki munn, taki ekki tilsögn og skemmi muni. Svo fast kvað að þessu hátterni að kalla þurfti til lögreglu til að fjarlægja nokkra pörupilta. Þetta kemur heim og saman við reynslu mína í Smáralindinni. Hér sjáum við dæmi um samfélagsúrkynjunina sem ég hef gert að umtalsefni áður ásamt fleirum.

Dómsmálaráðherrann ritar á heimasíðu sína skeleggur að vanda. Hann gerir að umtalsefni illkvittnina sem nýr hæstaréttadómari mætir hvarvetna. Nú var það Pétur Þorsteinsson "prestur" hjá "Óháða söfnuðinum" sem reyndi að ata nýja dómarann auri. Annars voru einhver fleiri níðskrif í Morgunblaðinu um dómarann fyrr í vikunni sem ég man ekki lengur hver voru og ráðherran sennilega ekki heldur fyrst hann minnist ekki á þau.

Friday, October 15, 2004

Kringlan og Smáralind

Konan hringdi áðan. Hún stakk upp á því að við færum ásamt syninum í verslanamiðstöðvarnar Kringluna og Smárann síðdegis. Hún ætlar að kaupa móðinsföt á soninn, hann hefur ítrekað óskað eftir slíkum fatnaði. Ég hef oft komið í Kringluna, sérstaklega þegar hún var nýopnuð, en ekki oft í Smáralindina. Þetta á eftir að verða svolítið ævintýri fyrir fjölskylduna.

Wednesday, October 13, 2004

Póstfang

Ég er ekki mikill tæknimaður. En með aðstoð sonar míns tókst mér að setja netfang hér í hornið efst til vinstri. Nú er ég að verða eins og hinir.

Tuesday, October 12, 2004

Annir

Það hafa verið mikilar annar á stofunni hjá mér undanfarna daga. Þess vegna hef ég ekki átt þess kost að opna "blogger" og skrifa niður huleiðingar mínar.

Mér þykir ánægjulegt að sjá viðbrögð við skrifum mínum og fá "comment" eða athugasemdir. Íhaldsmaðurinn ungi sem ég hlekkjaði um daginn gerir skrif mín að umtalsefni. Við deilum skoðunum á skipulagsmálum, en hann hefur tjáð sig skelegglega um þau. Svo gerir hann kímnigáfu mína líka að umtalsefni. Konan mín og gamlir vinir þekkja svo sannalega til hennar en ég hélt að hún kæmi ekki fram í skrifum mínum hér.

Annar ungur íhaldsmaður skrifar ánægjulega athugsemd við skrif mín og er ég mjög glaður yfir því.

En svo eru alltaf til einhverjir nafnlausir dónar sem þurfa að ata heiðarlegt fólk auri. Þetta er kannski einn af þeim nafnlausu dónum sem skrifar reglulega á "málefnin"

Saturday, October 09, 2004

Samfélagsleg úrkynjun

Það er ánægjulegt að fylgjast með því hvernig þjóðfélagsumræðan leggur undir sig nýjan miðil. Virk þátttaka í þeirri umræðu er ekki bundin við greinaskrif þeirra sem fá birt eftir sig efni í dagblöðunum.

Í dag rakst ég á skynsöm skrif á þessari síðu . Þarna ritar maður sem virðist sammála því sem ég hef skrifað nokkrum sinnum fyrr á þessum vettvangi .

Þessi bloggari kemst vel að orði þegar hann segir "úthverfavæðingin skili sér í samfélagslegri úrkynjun" . Þetta blasir við þegar ekið er austur fyrir Kringlumýrarbraut.Það geri ég í hvert sinn er ég fer austur í bústað.

Er þetta úrkynjunin sem við viljum sjá?

Wednesday, October 06, 2004

Kristileg íhaldssemi

Á vefritinu "Deiglan.com" birtist í dag fróðleg grein um þá jákvæðu þróun sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum undanfarna áratugi.

Hér á Íslandi og víða í Evrópu hefur afhelgun og múgmennska gegnsýrt samfélagið. Bandaríkjamönnum hefur tekist að standa fast gegn þessari hningnun í sínu landi. Þar býr enn Guðhrætt og vammlaust fólk. Í Deiglugreininni kemur fram að trúin gegnir mikilvægu hlutverki í lífi meira en 60% þjóðarinnar og meira en helmingur hennar áttar sig jafnframt á tilvist djöfulsins.

Þá veit sama hlutfall Bandaríkjamanna að hlutverk ríkisins er að sjá til þess að fólk hafi frelsi til ná markmiðum sínum.

Einnig segir Deiglan:

"Í Bandaríkjunum er hlutfall þeirra sem hafa 40% eða minna af meðaltekjum þrefalt fleiri en í Bretlandi. Miljónamæringar eru einnig mun fleiri í Bandaríkjunum" enda eru "Tæplega 90% Bandaríkjamanna [...] mjög stolt af þjóðerni sínu."

Við Íslendingar höfum enn tækifæri til að snúa frá villu okkar

KB banki styður mitt mál

Aftur fær ég staðfestingu á því sem ég hef haldið fram í fyrri skrifum mínum, sbr. færsluna hér að neðan. Sósjalisminn sem ríkt hefur í fjármálalífi þjóðarinnar hefur niðurgreitt húsnæði undir fólkið í úthverfunum árum saman, eins og KB banki bendir á í dag. Svo vill þetta fólk fá enn frekari niðurgreiðslu í formi sífellt breiðar og breiðari gatna svo það geti komist í miðbæinn þegar því hentar!

Tuesday, October 05, 2004

Miðbærinn er aldrei ókeypis

Ekki er ég sammála þeim ungu flokkssystkynum mínum sem mótmæla "frestun" mislægra gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar.

Ég hefði haldið að þau ættu að vita manna best að miðbærinn er aldrei ókeypis

Sunday, October 03, 2004

Afhelgun samfélagsins

Vikan var annars að mörgu leyti sorgleg þegar litið er til atburða vikunnar. Á föstudag kom Alþingi saman, að öllu jöfnu er það hátíðlegur dagur í vitund þjóðarinnar. En svo var ekki að þessu sinni.

Hópur guðleysingja gerði sér leik að því að rifja upp þann sorglega atburð þegar ógæfumaður hér í borg sletti skyri á þingheim, biskup og forseta fyrir mörgum árum. Þessi ungi maður lýsir af fullkomnu blygðunarleysi öllum smáatriðum hryðjuverksins.

En þetta var því miður ekki það eina sorglega við þennan dag. Forseti Alþingis gerði réttilega að umfjöllunarefni í setningarræðu sinni þá aðför að þinginu sem átti sér stað á liðnu sumri. Þar gagnrýndi hann það að maður utan þingsins reyndi að taka sér guðlegt vald og setja ofaní við réttkjörið þing þjóðarinnar. Bregður þá svo við að nokkrir andstöðuþingmenn standa upp og ganga úr þingsal. Sem betur fer höfum við ennþá Morgunblaðið til að setja ofaní við menn sem haga sér með þessum hætti. Hvers konar þingmenn eru það sem ekki standa með forseta sínum þegar hann bregst til varnar þinginu sem þeir sitja? Það eru menn lítilla sanda og lítilla sæva.

Þessir tvær sorlegu atburðir föstudagsins eiga rætur að rekja til afhelgunarinnar sem átt hefur sér stað í samfélaginu. Ungir menn afneita Guði og maður utan þingsins þykist vera guð.

Gangsterar í liðinu

Í liðinni viku sáu framsóknarmenn sér ekki annað fært en svipta Kristinn H. Gunnarsson öllum trúnaðarstöðum fyrir þingflokkinn.

Þetta kemur ekki á óvart. Þingmennska er ekki vettvangur fyrir einleikara og egóista.

Það þarf svo sem ekki að koma á óvart að fullt af fólki rísi upp á afturlappirnar og mótmæli.

Hver vill hafa gangstera í liðinu sínu?

Thursday, September 30, 2004

Ánægjulegt

er að hugmyndir mínar eiga sér sífellt meiri hljómgrunn í samfélaginu, nú eru það Vinstri grænir sem taka undir.

Fasteignaverð

Og enn fleiri á sama máli!

Skoðanir mínar styrktar

Nú staðfesta rannsóknir fræðimanna að ég hef haft rétt fyrir mér!

Fleiri en ég hafa áttað sig á þessu.

Slíta lögin - slíta friðinn

Ekki eru það gleðifréttir sem maður les á blogginu í dag. Ungir menn lýsa sig úr samfélagi við lögin. Er friðurinn ekki slitinn þegar menn slíta lögin.

Þessi og þessi eru mér ekki sammála um ágæti Jóns Steinars í sæti hæstaréttardómara.

Wednesday, September 29, 2004

Fleiri skoðanasystkyn

Maður eins og ég með sérstakar skoðanir á því ekki að venjast að þær eigi almennan hljómgrunn meðal samferðafólks. Það kom mér því þægilega á óvart að sjá í Fréttablaðinu í gær grein eftir Hauk Loga Karlsson þar sem hann kemst að sömu niðurstöðu og ég hér í fyrri færslum, hér og hér.

Haukur Logi segir:

"Óumflýjanlegt virðist að borgarbúar sætti sig við það sama og íbúar flestra annara [svo] borga í heiminum. Að það kosti töluverðan biðtíma á umferðaræðum að komast á einkabíl til vinnu á miðsvæðum borga"

Monday, September 27, 2004

Hver er heppilegri en Jón Steinar?

Það er gaman að fylgjast með fjörugum umræðum þessa dagana um val á hæstaréttardómara. Áður hef ég vísað á fréttir og blogg þar sem fjallað er um málið. Í dag fjallar mikilvirkur þjóðfélagsrýnir um málið.

Ég tel að í allri þessari umræðu um val á dómara sé allt of mikið fjallað um meinta "lögfræðiþekkingu" kandídatanna og hvort einn þeirra búi yfir meira eða minna af slíku. Almennt tel ég að gert sé of mikið úr svokallaðri fræðilegri þekkingu í samfélaginu.

Það sem mestu skiptir er að dómarar séu réttsýnir. Vissulega reynir á fræðilega þekkingu í lögfræði þegar unnið er við dómsstörf en þegar kemur að því að kveða upp hina endanlegu dóma er það skynsemi og dómgreind dómarans sem öllu skiptir. Ráðamenn hafa ítrekað bent á hvernig dómstólar hafa farið út af sporinu. Ástæða þess er áreiðanlega ekki sú að dómararnir séu ekki nógu vel lesnir í fræðunum heldur sú að þá skortir réttsýni.

Það er í sjálfu sér engin ástæða til þess að dómarar séu menntaðir lögfræðingar. Það er nægilegt að þeir njóti aðstoðar og ráðgjafar sérfróðra manna um þau fræðilegu atriði sem taka þarf tillit til. Þannig er eðlilegt að við réttinn starfi her lögfræðinga sem upplýsi dómarana og gefi þeim ráð en dómararnir sjálfir þurfa alls ekki að vera löglærðir.

Höfum stjórn efnahagsmála til hliðsjónar. Vissulega skiptir hagfræðiþekking þar máli. Það er hins vegar engin þörf á því að seðlabankastjóri sé menntaður hagfræðingur. Hann hefur her slíkra manna til að vinna fyrir sig. Aðalatriðið er að seðlabankastjóri sé réttsýnn maður og skynsamur. Oft veljast til starfans menn sem sýnt hafa nákvæmlega þessa eiginleika á öðrum vettvangi s.s. á vettvangi stjórnmálanna.

Þegar kemur að því að velja dómara í Hæstarétt á ekki að þurfa að taka tillit til annars en þess hvort kandídatar séu réttsýnir. Lögfræðiþekkingin er tæknilegt mál og nóg af mönnum (og e.t.v. konum) sem kunna skil á henni. Þannig þarf ekki að flækja val á hæstaréttardómara með alls kyns óskyldum hlutum eins og því hvað menn hafi birt mikið af ritrýndum fræðigreinum eða hvað þetta heitir nú allt saman. Þess í stað nægði að líta til þess hvort menn hafi sýnt skynsemi og réttsýni í störfum sínum og framgöngu. Þá væri t.d. unnt að ráða vandaða stjórnmálamenn eða menn af öðrum vettvangi í dómarastarf.

Hver er hæfari til að gegna dómarastarfi við Hæstarétt en Hannes Hólmsteinn Gissurarson? Miðað við núgildandi forsendur um val á dómara er hann útilokaður vegna þess að hann las ekki fræði við rétta deild í háskóla á sínum tíma! Allir skynsamir menn sjá hversu fáránlegt er að hann eigi ekki kost á því að dæma við Hæstarétt.

Sunday, September 26, 2004

Skoðanaskipti

Sífellt uppgötva ég betur möguleika þessa bloggs sem vettvangs skoðanaskipta. Ég sé að einhver lesanda minna (Sævar Ö) hefur gert athugsemd við skrif mín. Mér þykir það mjög ánægjulegt að hægt sé að gera athugasemdir með þessum hætti. Og gaman þykir mér að fá viðbrögð við skrifum mínum.

Ef ég skil Sævar rétt þá tekur hann heils hugar undir málflutning minn (og Kolbrúnar) en gerir athugasemd við framsetninguna sem honum þykir hrokafull.

Ég kýs að orða málflutning minn ávallt tæpitungulaust, tel það affararsælast.

Friday, September 24, 2004

Einhver ósammála

Ekki eru allir sammála okkur Kolbrúnu Halldórsdóttur um samgöngumál í höfuðborginni. Mörgum finnst þeir eiga rétt á að fá allt fyrir ekkert. Úthverfafólk sem greiðir lægri húsnæðiskostnað getur ekki ætlast til þess að það njóti sömu gæða og þeir sem búa í miðborginni. Þeir sem búa í miðborginni greiða fyrir þau gæði með hærra lóðaverði og hærra húsnæðisverði. Það er ekki endalaust hægt að leggja byrðar á meðborgarana.

Thursday, September 23, 2004

Sammála Kolbrúnu Halldórsdóttur

Fólk hefur ólíkar skoðanir. Oftast er það svo að þeir sem eru á sama máli um eitt eru sammála um annað. Og öfugt. Þannig er ég til dæmis svo gott sem alltaf ósammála Kolbrúnu Halldórsdóttur þingkonu Vinstri grænna og félögum hennar. Í gær brá hins vegar svo við að hún ritaði pistil á heimasíðu sem ég var alveg hjartanlega sammála. Þar þykir mér hún sýna bæði réttsýni og staðfestu.

"Það er ekki einfalt fyrir yfirvöld [...] að knýja fram skynsamlega stefnu [...] þegar stór hluti íbúanna gerir kröfur sem ganga í allt aðrar áttir. Þá er spurning hvort stjórnvöld eigi að sýna eftirgjöf til að afla sér vinsælda, eða halda fast við stefnu sína. Mér þykir síðari kosturinn vænlegri ..."

Það er ánægjulegt að enn skuli vera til stjórnmálamenn sem fara að skynsemi en fylgja ekki hrópum lýðsins. Málefnið sem Kolbrún gerir að umfjöllunarefni er hin mikla notkun bifreiða sem nú tröllríður samfélaginu. Nú væri í sjálfu sér ekkert við það að athuga að menn notuðu bílana sína ef ekki kæmu til þessar endalausu kröfur um að hið opinbera sjái ÖLLUM fyrir greiðri umferð innan borgarinnar. Slíkt tíðkast hvergi í hinum vestræna heimi. Það vita allir sem komið hafa á Manhattan-eyju eða til Parísar.

Að sjálfsögðu er ekki eðlilegt að fólkið í úthverfunum geti skotist rétt si svona oní miðbæ eins og ekkert sé. Miðbæir eru merkilegir, þar er kjarni menningarinnar. Þar er miðstöð stjórnsýslu, fjármála og verslunar og þar fer fram arðbærasta starfsemin í hverju samfélagi, sú starfsemi sem skapar mestan virðisauka. Lóðaverð er einnig verðmætast í miðborgum og næsta nágrenni. Miðborgir og nágrenni eru því oftast nær bústaður betri borgara sem starfa í miðborginni við verðmætaskapandi iðju. Þar búa að jafnaði þeir sem fágaðastan hafa smekkinn og kunna að njóta fagurra lista. Þetta fólk fer gjarna fótgangandi til vinnu sinnar eða ekur einungis stuttan spöl.

Nú eru hins vegar uppi endalausar kröfur í samfélaginu um að allir eigi "rétt" á að aka í miðborgina á svipstundu. Fólk í fjölbýlishúsum úthverfanna á að hafa sama aðgang að miðbænum og þeir sem þar búa. Þetta er að sjálfsögðu afleitt sjónarmið. Miðbærinn er aldrei ókeypis. Landið sem tekið er undir gatnakerfi er verðmætt. Þegar fólkið sem býr í úthverfunum gerir sér erindi í miðbæinn er ekki ósanngjarnt að það þurfi að greiða fyrir þann kostnað með smávægilegum töfum á leiðinni. Tími þessa fólk er heldur ekki eins verðmætur því það hefur að jafnaði lægri tekjur. Ekki viljum við fórna lóðum þar sem byggja má vönduð og dýr hús undir götur til þess eins að þetta fólk geti brunað þar um?? Það er ekki þjóðhagslega hagkvæmt.

Wednesday, September 22, 2004

Ólík sjónarmið

Ég er nú óðum að kynnast nýjum og nýjum bloggsíðum og þeim sjónarmiðum sem þar eru sett fram. Ekki átta ég mig alveg á þeim skoðunum sem sumir halda fram, s.s. um verkfall kennara. Ég hallast helst að því að menn séu blindaðir af eiginhagsmunum.

Tuesday, September 21, 2004

Sjálfstæður dómari

Það er ánægjulegt að það skuli að minnsta kosti vera einn starfandi dómari við Hæstarétt sem hefur sjálfstæðar skoðanir.

Það er ljóst að Jón Steinar er lagður í einelti.

Greinilegt er að fleirum en mér þykir þetta athyglisvert.

Monday, September 20, 2004

Undarlegt verkfall

Ég er undrandi yfir verkfalli sem nú er brostið á. Kennarastéttin svokallaða krefst sífellt hærri og hærri launa og ýkir þráfaldlega miklivægi sitt í samfélaginu.

Með langvinnri og vel skipulagðri sérhagsmunabaráttu hefur kennurum tekist að koma sér á ótrúlega háan stall í samfélaginu, langt um fram það sem innstæða er fyrir. Þeir skreyta sig með prófgráðum sem kenndar eru við háskóla og nota þær sem vopn í baráttu sinni við að skara eld að sinni köku og sækja fé í almannasjóði.

Hér á árum áður til sveita var það gjarna heilsutæpt fólk, aumingjar og aðrir sem af einhverjum ástæðum gátu ekki unnið, sem fengið var til að segja börnum til, kveða að og draga til stafs. Öll munum við jú eftir Ólafi Kárasyni. Engum sögum fer af því að þetta hafi ekki gengið vel. Getum við ekki snúið aftur til þessara hátta?

Er ekki ástæða til að einhverjir sem nú þiggja örorkubætur og sinna engu starfi myndu segja ungviðinu til.






Sunday, September 19, 2004

Athyglisverður rithöfundur

Eftir að ég tók að kynna mér þetta svokallaða blogg rakst ég á athyglisverða síðu. Hún er skrifuð af Ágústi nokkrum Borgþóri. Hann er ungur rithöfundur hér í borg. Ólíkt mörgum svoleiðis mönnum er hann ekki fullur af órum og villum sem oft birtast í vinstrimennsku ýmis konar. Ágúst er greinilega vandaður maður með heilbrigðar skoðanir og heldur þeim fram af festu. Ég hef ekki lesið neitt af útgefnum verkum hans en ætla svo sannarlega að gera það.

Saturday, September 18, 2004

Tekið til máls

Ég hef áttað mig á því að menn eins og ég verða að beita fyrir sig nútímatækni til að koma skoðunum sínum á framfæri