Sunday, April 30, 2006

Nýtt framboð EXBÉ

Eins og þið vitið kæru vinir þá er ég mikill Sjálfstæðismaður. Mér þykir samt deyfði yfir mínum flokki fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Ég hefði kosið að Gísli Marteinn hefði leitt listann eins og ég skrifaði hér á þessum vettvangi.

Nýtt framboð til borgarstjórnar hefur því vakið athygli mína og áhuga. Það er framboðið EXBÉ. Fyrir því fer ungur maður Björn Ingi Hrafnsson. Hann er skeleggur í málflutningi sínum, snyrtilegur og háttvís í fasi og framkomu. Málefnin sem hann leggur áherslu á falla mér vel í geð.

Hans tillaga er að foreldrum sé greitt fyrir að vera heima hjá ungum börnum sínum. Þetta er heilbrigt svar við leikskólavæðingu samfélagsins þar sem hið opinbera vill ala upp börnin frá unga aldri og innræta þeim "réttar" hugmyndir. Hið heilbrigða og rétta er að foreldrarnir ali upp eigin börn og mæður séu heima við amk á meðan börnin eru ung.

Hugmyndir hans um flugvöllinn falla mér einnig vel í geð. Að sjálfsögðu þarf flugvöllurinn að fara burt úr Vatnsmýrinni. Það þarf að efla Reykjavík sem Borg með stórum staf. Það er óþolandi að betri borgarar þurfi að hrekjast í úthverfin vegna þess að ekki er nægt landrými í hjarta borgarinnar. Það er heldur ekki gott að flugið hverfi burt úr borginni. Sjálfur vill ég ekki þurfa að brjótast í umferðaþvögu í gegnum úthverfin til að komast í flug. Þess vegna er flugvöllur á Lönguskerjum besta lausnin. Kostnaðurinn við þá framkvæmd er í raun enginn því tekjurnar sem hafa má af landinu sem losnar þegar fluvöllurinn hverfur úr Vatnsmýrinni er svo gífurlegur að hann vegur upp á móti kostnaði við að leggja flugbrautir í Skerjafirði.

Mér finnst því koma vel til greina að kjósa EXBÉ í maí.