Tuesday, July 05, 2005

DV og Hér og Nú

Ég skil ekki alveg alla þessa hneykslan sem verið hefur í gangi vegna dagblaðsins DV og tímaritsins Hér og Nú. Fólk hefur hneykslast á því að börn þurfi að lesa um framhjáhald foreldra sinna í blöðunum. En eru það ekki hinir framhjáhaldandi foreldrar sem eru sökudólgarnir í málinu? Eða var það kannski Hér og Nú sem hélt framhjá? Nei, fólk ætti að hugsa sig aðeins um áður en það drýgir syndir sínar.

Bæði þessi rit gegna mikilvægu hlutverki. Þau veita samfélaginu aðhald. Það er hlutverk fjölmiðla. Mikið er talað um að fjölmiðlar veiti stjórnvöldum og fyrirtækjum aðhald. Það er ekki síður mikilvægt að hinum almenna borgara sé veitt aðhald. Ef fjölmiðlar eru duglegir við að benda á hórdóm þegar hann er framinn þá hugsar fólk sig kannski tvisvar um áður en það lætur til skarar skríða. Það er að segja ef það hefur einhverja sómatilfinningu.

Saturday, July 02, 2005

Sumarið er tíminn

Það er orðið langt síðan síðast. Ég hef ekkert "bloggað" síðan um páska. Það á sér fyrst og fremst rætur í miklum önnum á stofunni.

Nú þegar sumarið er komið vill maður síður sitja inni yfir tölvunni. Það er miklu skemmtilegra að staldra við í miðbænum á leiðinni heim og taka fólk tali. Ég sest oft á bekk á Austurvelli, gjarnan með öl, og spjalla við félagana. Mér finnst það skemmtilegra heldur en eiga í samskiptum við fólk í gegnum tölvuna.