Saturday, November 04, 2006

Verndarstefna

Ég er mjög ánægður hvað náttúruvernd á mikið upp á pallborðið hjá samtíðarfólki mínu. Sérstaklega á þetta við um samborgara mína en síður um fólk til sveita og öðru dreifbýli. Það er manninum eðlislægt að tigna náttúruna. Í henni býr frumkraftur veruleikans. Þess vegna er hún sjálf handhafi réttar sem mönnunum ber að virða. Engin arðsemi eða aðrir mannlegir kvarðar á notagildi hennar geta nokkurn tíma réttlætt að náttúran sé beitt ofbeldi, líkt og því sem hún hefur mátt þola á Austurlandi hin seinni ár.

Það er einungis fyrir tilverknað náttúrunnar sem maðurinn er maður. Við öðlumst mennsku okkar með því að spegla okkur í náttúrunni. Óspjölluðu náttúra eru mestu verðmæti hverrar þjóðar. Nauðgun náttúrunnar er einhver mesti ofbeldisglæpur sem til er.

En það er ekki einungis náttúruna sem ber að vernda. Við þurfum líka að hugsa til þess að vernda félagslegt landslag. Á ferðum mínum erlendis hef ég oft glaðst þegar ég hef komið til staða þar sem mannlífið hefur haldist óspjallað í þúsundir ára. Þetta má til dæmis sjá að nokkru marki víða í suður Evrópu, Suður-Ameríku. En hvergi sér maður þetta betur en í Asíu. Það er hrein unun að komast í kynni við Indland og mannlífið þar. Þar hefur tekist að vernda hið forna félagslega landslag að mestu óspjallað. Hver maður hefur ákveðið hlutverk og allir eru hamingjusamir í fjölbreyttu samfélagi.

Hér á Íslandi þurfum við líka að vernda félagslegt landslag. Félagslegt landslag í gömlu fiskimannaþorpunum á Austulandi og Vestfjörðum viljum við vernda. Við viljum ekki sjá fólkið flytja burt eða setjast við háskólanám og tapa sérkenum sínum. Enn síður viljum við að fólkið hópi sig inn í stóriðjuver.

Monday, October 02, 2006

Staksteinar hitta naglann á höfuðið

Í Morgunblaðinu er birtut dálkurinn Staksteinar sem stingur á ýmsum mikilvægum samfélagsmálum. Í morgun var fjallað um Samtök herstöðvarandstæðinga og alla þá sem gengu í þágu kommúnista og kúgara. Góður pistill.

Sunday, October 01, 2006

Öryggisleysi

Það er ekki laust við ég finni til öryggisleysis. Nú er varnarliðið farið af Miðnesheiðinni og landið opið fyrir kommúnistum og Guðleysingjum.

Það setti líka að mér hroll um daginn þegar fram kom í fréttum að aðeins tveir menn hefðu starfað leynilega að því á kaldastríðsárunum að bægja ógnum kommúnsmans frá landi og þjóð. Þetta gerir mig þunglyndan.

Monday, August 14, 2006

Jón Valur góður

Ég horfði á Kastljósið í kvöld. Þar talaði Jón Valur Jensson guðfræðingur og ættfræðingur. Hann flutti mál sitt af skörungsskap, lagði fram margar staðreyndir máli sínu til stuðnings og byggði það af stakri rökvísi. Jón Valur tjáir sig oft um ýmis málefni og hefur ávallt rétta sýn á málið. Jón Valur þyrfti að láta meira að sér kveða í þjóðfélagsumræðunni því þar á málflutningur hans heima.

Saturday, July 22, 2006

Mávaplágan

Það er gleðiefni að við stjórnvölinn í Borginni skuli nú vera sestir menn sem takast á við vandamál sem að steðja.

Vá stendur fyrir dyrum. Breytingar á lífríki og lífsáttum hafa aukið viðkomu máva og fleira illfyglis. Hagsmunum miðborgarinnar er ógnað vegna þess að þeir sækja í brauð sem fjölskyldur kasta í Tjörnina og ætlað er öndunum og leggja sér þar að auki saklausa andarunga til munns. Ég fagna því að stjórnmálamaðurinn knái Gísli Marteinn Baldursson ætli að sjá til þess að þeir verði skotnir. Það er óviðunandi að miðborgin sé út ötuð í þessum ófögnuði.

Sunday, April 30, 2006

Nýtt framboð EXBÉ

Eins og þið vitið kæru vinir þá er ég mikill Sjálfstæðismaður. Mér þykir samt deyfði yfir mínum flokki fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Ég hefði kosið að Gísli Marteinn hefði leitt listann eins og ég skrifaði hér á þessum vettvangi.

Nýtt framboð til borgarstjórnar hefur því vakið athygli mína og áhuga. Það er framboðið EXBÉ. Fyrir því fer ungur maður Björn Ingi Hrafnsson. Hann er skeleggur í málflutningi sínum, snyrtilegur og háttvís í fasi og framkomu. Málefnin sem hann leggur áherslu á falla mér vel í geð.

Hans tillaga er að foreldrum sé greitt fyrir að vera heima hjá ungum börnum sínum. Þetta er heilbrigt svar við leikskólavæðingu samfélagsins þar sem hið opinbera vill ala upp börnin frá unga aldri og innræta þeim "réttar" hugmyndir. Hið heilbrigða og rétta er að foreldrarnir ali upp eigin börn og mæður séu heima við amk á meðan börnin eru ung.

Hugmyndir hans um flugvöllinn falla mér einnig vel í geð. Að sjálfsögðu þarf flugvöllurinn að fara burt úr Vatnsmýrinni. Það þarf að efla Reykjavík sem Borg með stórum staf. Það er óþolandi að betri borgarar þurfi að hrekjast í úthverfin vegna þess að ekki er nægt landrými í hjarta borgarinnar. Það er heldur ekki gott að flugið hverfi burt úr borginni. Sjálfur vill ég ekki þurfa að brjótast í umferðaþvögu í gegnum úthverfin til að komast í flug. Þess vegna er flugvöllur á Lönguskerjum besta lausnin. Kostnaðurinn við þá framkvæmd er í raun enginn því tekjurnar sem hafa má af landinu sem losnar þegar fluvöllurinn hverfur úr Vatnsmýrinni er svo gífurlegur að hann vegur upp á móti kostnaði við að leggja flugbrautir í Skerjafirði.

Mér finnst því koma vel til greina að kjósa EXBÉ í maí.

Tuesday, January 03, 2006

Laun dyggðarinnar

Breska tímaritið The Economist greindi nýlega frá því að kirkjurækið fólk hefur að jafnaði hærri tekjur en aðrir. Einar K. Guðfinnsson alþingismaður gerir þetta að umfjöllunarefni á "bloggi" sínu. Þetta þarf ekki að koma okkur kristnu fólki á óvart. Laun dyggðarinnar eru oft greidd þegar í jarðlífinu sjálfu. Gott veraldargegni er oft vísbending um að menn séu hólpnir.

Þær dyggðir sem færa mönnum veraldarauð falla iðulega saman við Guðs ótta og góða siði.