Saturday, November 04, 2006

Verndarstefna

Ég er mjög ánægður hvað náttúruvernd á mikið upp á pallborðið hjá samtíðarfólki mínu. Sérstaklega á þetta við um samborgara mína en síður um fólk til sveita og öðru dreifbýli. Það er manninum eðlislægt að tigna náttúruna. Í henni býr frumkraftur veruleikans. Þess vegna er hún sjálf handhafi réttar sem mönnunum ber að virða. Engin arðsemi eða aðrir mannlegir kvarðar á notagildi hennar geta nokkurn tíma réttlætt að náttúran sé beitt ofbeldi, líkt og því sem hún hefur mátt þola á Austurlandi hin seinni ár.

Það er einungis fyrir tilverknað náttúrunnar sem maðurinn er maður. Við öðlumst mennsku okkar með því að spegla okkur í náttúrunni. Óspjölluðu náttúra eru mestu verðmæti hverrar þjóðar. Nauðgun náttúrunnar er einhver mesti ofbeldisglæpur sem til er.

En það er ekki einungis náttúruna sem ber að vernda. Við þurfum líka að hugsa til þess að vernda félagslegt landslag. Á ferðum mínum erlendis hef ég oft glaðst þegar ég hef komið til staða þar sem mannlífið hefur haldist óspjallað í þúsundir ára. Þetta má til dæmis sjá að nokkru marki víða í suður Evrópu, Suður-Ameríku. En hvergi sér maður þetta betur en í Asíu. Það er hrein unun að komast í kynni við Indland og mannlífið þar. Þar hefur tekist að vernda hið forna félagslega landslag að mestu óspjallað. Hver maður hefur ákveðið hlutverk og allir eru hamingjusamir í fjölbreyttu samfélagi.

Hér á Íslandi þurfum við líka að vernda félagslegt landslag. Félagslegt landslag í gömlu fiskimannaþorpunum á Austulandi og Vestfjörðum viljum við vernda. Við viljum ekki sjá fólkið flytja burt eða setjast við háskólanám og tapa sérkenum sínum. Enn síður viljum við að fólkið hópi sig inn í stóriðjuver.