Sunday, November 27, 2005

Hryggð

Lausungin í samfélaginu gerir mig hryggan.

Wednesday, November 23, 2005

Þörf aðvörun séra Friðriks Schram

Séra Friðrik Schram prestur Kristskirkjunnar ritar þarfa ábendingu í Morgunblaðið í dag. Þar varar hann við þeim lausungarhugmyndum sem nú ríða húsum á hinu háa Aþingi. Friðrik bendir réttilega á að "Þjóðfélög sem hafa snúið frá hinum góða grunni kristilegs siðgæðis hafa uppskorið ógæfu, upplausn og mikla þjáningu."

Ég hvet alla til að lesa grein séra Friðriks.

Tuesday, November 22, 2005

Sundabrautarsamsærið

Ég hlustaði á útvarpið í morgunn á meðan ég las Morgunblaðið og drakk teið mitt. Þar rætt við Örn Sigurðsson arkitekt. Hann benti á þau hrikalegu skipulagsmistök sem nú eru í uppsiglingu vegna svokallaðrar "Sundabrautar".

Það er með ólíkindum að það eigi að eyða milljörðum í vegaspotta til þess að auka aðgengi úthverfabúanna að borginni.

Það rann upp fyrir mér ljós. Þessi "Sundabraut" er ekkert annað samsæri landsbyggðar-og úthverfafólksins um að draga á langinn brottflutning flugvallarins úr Vatnsmýrinni.

Sunday, November 20, 2005

Eins og allir vita þá er ég góður og gegn Sjálfstæðismaður. Ég er hins vegar víðsýnn maður og dæmi ávallt anstæðingana af sanngirni. Ég hef áður fjallað um núverandi borgarstjóra hér á þessu bloggi og lýst yfir ánægju með hann. Í kvöld horfði ég á ungan borgarfulltrúa Samfylkingarinnar í sjónvarpinu, Dag Eggertsson. Hann kemur mér fyrir sjónir sem skynsamur maður og málefnalegur. Ég yrði illa svikinn ef hann tekur ekki þátt í prófjöri samfylkingarinnar um fyrsta sæti listans.

Jólastemming í miðborginn

Mikið er ánægjulegt hvað miðbærinn skrýðist sínum fallega jólaskrúða sífellt fyrr á haustin með hverju árinu sem líður. Það var mjög ánægjulegt að ganga um miðbæinn og sjá allt fólkið sem farið var að huga að undibúningi jólanna. Borgaryfirvöld verðskulda þakkir fyrir að skreyta bæinn og hlú að starfseminni í borginni. Konan rekur verslun í miðborginni og hún líkir því ekki saman hve mikið viðskiptin hafa aukist mikið frá því sem áður var.

Wednesday, November 09, 2005

Óeirðirnar í París

Nú berast ljótar fréttir frá menningarborginni París. Þar logar allt í óeirðum. Stjórnlaus ungmenni frá úthverfunum fara um strætin með ofsopa, kveikja í bílum, brjóta og bramla. Þessi ungmennin eru í fæstum tilfellum kristin og rekja ættir sínar til Afríku. Getum við Reykvíkingar átt von á að eitthvað í líkingu við þetta gerist í túnfætinum hjá okkur? Mér hefur verið sagt að í úthverfum Reykjavíkur hafi sest að mikilli fjöldi innflytjenda. Í grunnskólunum er móðurmál nemendanna gjarna eitthvað allt annað en Íslenska. Vissulega er þörf á því að fólk af erlendu bergi brotið komi til Íslands og starfi hér á þenslutímum. Við þurfum þó að fara varlega. Sennilega er skynsamlegast að þetta fólk búi einmitt í úthverfunum í námunda við verksmiðjurnar. Þannig getum við forðast þau vandræði sem vinir okkar frakkar kljást við þessa dagana.

Tuesday, November 08, 2005

Erfið ákvörðun

Stjórnmálamenn sem ekki geta tekið erfiðar ákvarðanir eiga að snúa sér að einhverju öðru. Þar komst Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vel að orði. Stjórnmálamenn þurfa að taka erfiðar ákvarðanir, eins og t.d. að hefja stríð gegn einræðisherra, ákvarðanir sem kunna að koma einhverjum illa fjótt á litið en eru öllum til góðs þegar litið er fram á veginn. Það þarf vel gert og staðfast fólk til að gegna trúnaðarstörfum fyrir samfélagið.

Það er mjög erfið ákvörðun að stytta nám til stúdentspróf.

Sunday, November 06, 2005

Undarlegar niðurstöður úr prófkjöri

Niðurstöður prófkjörsins komu mér mjög á óvart.

Þessi mikli munur á Gísla Martein og Vilhjálmi kom á óvart.

Saturday, November 05, 2005

Prófjörið mitt val

Þá er ég búinn að kjósa í prófkjörinu.

Að sjálfsögðu valdi ég Gísla í fyrsta sætið. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að hann er sjálfstæðismaður.
Í öðru lagi þá tel ég nauðsynlegt að hleypa framtíðinni að og láta fortíðina að baki. Allir þeir sem vilja nýja tíma í
Reykjavík kjósa að Gílsi Marteinn verði borgarstjóraefni flokksins í vor.

Í annað sætið kaus ég Örn Sigurðsson arkitekt. Hugmyndir hans um skipulagsmál borgarinnar eru í senn skarpar og ferskar eins og ég
hef áður gert grein fyrir hér á þessum síðum. Hann hefur verið í forsvari Höfuðborgarsamtakanna. Höfuðborgarsamtökin
hafa leitt málefnalega umræðu um þróun borgarinnar.

Í þriðja sætið kaus ég Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Hanna Birna er glæsilegur fulltrúi kvenþjóðarinnar. Hún er vel máli
farin og það er ununa að sjá hana og heyra í spjallþáttum ljósvakamiðlanna þegar hún tekur andstæðingana í bakaríið.

Í fjórða sætirð valdi ég Gústaf Adolf Níelsson. Fyrir utan að bera nafn hins mikla svíakonungs sem menn líta til þegar
rifja skal upp þá tíð þegar Svíþjóð var stórveldi er Gústaf hispurslaus og heldur fram heilbrigðum skoðunum af mikilli festu.

Ég hefði getað deilt atkvæði mínu á 9 einstaklinga en ég kaus að velja aðeins fjóra þannig að vægi hvers
og eins yrði meira.

Sunday, October 02, 2005

Aðförin að Morgunblaðinu

Mikið fár hefur riðið yfir okkar litla samfélag undanfarið. Málið hófst með þeim hætti að auglýsingablað, sem stórverslunanir bera í hús til að kynna vörur sínar en inniheldur auk þess ýmsa fróðleiksmola á milli auglýsinga, tók að birta svokallaða „tölvupósta“ sem farið höfðu á milli ritstjóra Morgunblaðsins og fólks úti í bæ sem leitað hafði til hans.

Æsingamenn hafa reynt að láta svo líta út sem þessir tölvupóstar leiði í ljós pólitískt samsæri. Staðreyndin er hins vegar sú að ekkert slíkt er hægt að lesa úr þessum plöggum. Veturinn og vorið 2002 höfðu ritstjóra Morgunblaðsins borist gögn sem bentu til vafasamra viðskiptahátta fyrirtækis nokkurs. Í stað þess að rjúka upp til handa og fóta og birta þau gögn, eins og slúðurblöð gera, tók ritstjórinn af málinu af yfirvegun og staðfestu. Hann ræddi málið við nána ráðgjafa sína um hvernig mætti uppræta slæma viðskiptahætti. Mogunblaðið er ekki dagblað í hefðbundinni merkingu þess orðs. Það er ein af grundvallarstoðum samfélagsins líkt og Hæstiréttur og Þjóðkirkjan. Það hreykir sér ekki, það efnir ekki til æsinga. Þess vegna birtir Mogunblaðið ekki allt sem það veit, það er lesendum þess ekki til góðs. Í stað þess ráðfærir það sig við góða menn og reynir að koma góðu til leiðar án þess að hrópa á torgum. Það er því í hæsta máta eðlilegt að menn setjist niður og tali saman um hvernig uppræta megi götstrákshátt í viðskiptum.

Niðurstaðan er: tölvupóstarnir ljóstra ekki upp um neitt nema að góðir menn gripu til heilbrigðra ráðstafana.

Birting tölvupóstanna ljóstraði hins vegar upp um aðra og ljótari hluti. Það er að nú tíðkast að þjófstela einkagögnum fólks og birta. Slíkt sýnir okkur hve siðferði fer hrakandi.

Thursday, September 22, 2005

Óþolandi hjólreiðar

Nú er í gangi svokölluð "samgönguvika". Þá blaðrar hver vitleysingurinn upp í annan um hjólreiðar endalaust. Það á að hlaða endalaust undir þetta lið. Þetta er óþolandi. Hjólreiðar eru bara stundaðar af fólki sem eru í afneitun gagnvart nútímalifnaðarháttum og ekkert annað. Nú til dags notar fólk bíla. Jú svo fara jú betri borgarar gangandi sem búa í miðbænum.

Sunday, September 18, 2005

Málefnin.com

Ég hef nokkrum sinnum tekið þátt í umræðum á svokölluðu spjallsvæði sem kallast málefnin.com. Mér virtist þetta við fyrstu kynni vera kjörinn vettvangur fyrir málefnalega umræðu um hin ýmsu mál. Nú er ég farinn að efast. Þarna skrifa fyrst og fremst svokallaðir "kverúlantar", fólk sem reynir að rakka niður Gísla Martein og reynir að mæla áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýrinni bót.

Tuesday, September 06, 2005

"BA" próf?

Undanfarið hefur verið nokkur umræða í samfélaginu um svokallað "BA" próf. Mér hafði skilist að hér væri um háskólapróf að ræða. Ég ákvað því að kynna mér nánar hvað hér væri á ferðinni og hvaða embættishæfi þetta próf gæfi. Undrun mín var mikil. Þetta svokallaða "BA" próf hefur ekkert með embættisgengi að gera. Háskólapróf eiga að vera embættispróf, háskólar eru til að mennta embættismenn. Próf sem ekki er embættispróf er ekki eiginlegt háskólapróf.

Skil ekki að það skipti máli hvort menn hafa eitthvert svona "BA" próf ekki, það er ekkert sem skipti máli, sennilega er betra að hafa ekkert slíkt.

Thursday, September 01, 2005

Gaman að eiga skoðanasystkyn

Það er alltaf gaman að verða þess áskynja að maður á sér skoðanabræður og systur. Þessi unga kona hér er mér saman sinnis um ágæti Gísla Marteins sem borgarstjóra.

Það er frískleikinn sem hún leggur áherslu á. Það er einmitt málið, auk þess sem hann er Sjálfstæðismaður.

Wednesday, August 31, 2005

Ósmekkleg skrif um ambassadorfjölskylduna

Það var ljótt bloggið sem ég las um fjölskyldu Svavars Gestssonar ambassadors í dag.

Gísli Marteinn segir það sem segja þarf

Ég hef verið bænheyrður, Gísli gefur kost á sér.

Framganga hans í fjölmiðlum undafarna daga hefur ber vitni um framsýnan æskumann sem á framtíðina fyrir sér. Hann skýrir í stuttu máli fyrir hvað hann stendur, hann er Sjálfstæðismaður. Andstæðingar hans hafa reynt að gera lítið úr honum vegna þess að hann lætur ekki teyma sig út í "djúpar" umræður um einhverja hugmyndafræði og svoleiðs fílósófíur. Gísli hefur sagt allt sem segja þarf.

Tuesday, August 23, 2005

Gísla Martein borgarstjóra

Það er mikilvægt að við Sjálfstæðismenn berum gæfu til að velja Gísla Martein leiðtoga D listans fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor. Hann verður glæsilegur borgarstjóri. Ungur og ferskur og glæsilegur, getur endurvakið tíma Davíðs í borginni.

Ég viðurkenni að ég hef hrifist af þeim borgarstýrum Steinnunni Valdísi og Ingibjörgu Sólrúnu, svo sem fram hefur komið hér á blogginu mínu. Þær eru íhaldssamar og framfarasinnaðar konur. En nú er komið að Gísla Marteini að leiða Borgina.

Tuesday, July 05, 2005

DV og Hér og Nú

Ég skil ekki alveg alla þessa hneykslan sem verið hefur í gangi vegna dagblaðsins DV og tímaritsins Hér og Nú. Fólk hefur hneykslast á því að börn þurfi að lesa um framhjáhald foreldra sinna í blöðunum. En eru það ekki hinir framhjáhaldandi foreldrar sem eru sökudólgarnir í málinu? Eða var það kannski Hér og Nú sem hélt framhjá? Nei, fólk ætti að hugsa sig aðeins um áður en það drýgir syndir sínar.

Bæði þessi rit gegna mikilvægu hlutverki. Þau veita samfélaginu aðhald. Það er hlutverk fjölmiðla. Mikið er talað um að fjölmiðlar veiti stjórnvöldum og fyrirtækjum aðhald. Það er ekki síður mikilvægt að hinum almenna borgara sé veitt aðhald. Ef fjölmiðlar eru duglegir við að benda á hórdóm þegar hann er framinn þá hugsar fólk sig kannski tvisvar um áður en það lætur til skarar skríða. Það er að segja ef það hefur einhverja sómatilfinningu.

Saturday, July 02, 2005

Sumarið er tíminn

Það er orðið langt síðan síðast. Ég hef ekkert "bloggað" síðan um páska. Það á sér fyrst og fremst rætur í miklum önnum á stofunni.

Nú þegar sumarið er komið vill maður síður sitja inni yfir tölvunni. Það er miklu skemmtilegra að staldra við í miðbænum á leiðinni heim og taka fólk tali. Ég sest oft á bekk á Austurvelli, gjarnan með öl, og spjalla við félagana. Mér finnst það skemmtilegra heldur en eiga í samskiptum við fólk í gegnum tölvuna.

Saturday, March 26, 2005

Páskar og píslir

Fjölskyldan lifði sig inn í píslir krists gær. Tókum daginn snemma og höfðum andakt. Sonur minn spurði hvort hann mætti ekki taka píslirnar út með því að fara í líkamsræktarstöðina og erfiða. Í fyrstu taldi ég það í lagi en svo áttaði ég mig á því að hann færi í endorfínvímu og myndi upplifa sæluástand og þá þvertók ég fyrir það.

Fjölskylda fór svo í kirkju og hlustaði á upplestur Passíusálma séra Hallgríms.

Ég verð svo reiður að ég gæti næstum grátið þegar ég les um unga menn sem hreykja sér af hegispjöllum.

Á morgun fögnum við upprisunni.

Tuesday, March 01, 2005

Örn Sigurðsson arkitekt

það er stutt en mjög athyglisvert viðtal við Örn Sigurðsson arkitekt á blaðsíðu 14 í Fréttablaðinu í dag. Þar ræðir hann um kosti þess að flytja flugvöllinn burt og byggja í Vatnsmýrinni. Sjálfur hef ég oft haldið þessu fram. Þá væri hægt að þróa áfram þann vísi að menningarlegri borg í Reykjavík sem kom fram snemma á síðustu öld samhliða ört vaxandi borgarastétt. Eins og allir vita þá lenti allt í ógöngum þegar líða tók á öldina. Ósmekkleg úthverfi með tilheyrandi skríl og ómenningu stöðvuðu allar þróun. Þótt mér sem gildum íhaldsmanni sé það þvert um geð þá verður að viðurkenna að það er R - listinn sem hefur reynt að snúa þessari öfugþróun við.

Örn bendir á, í þessu stutta en kjarnyrta viðtali, að Vatnsmýrin sé 200 milljarða virði. Þetta verðmæti er ekki einvörðungu falið í landinu sem fer undir nýjar byggingar. Verðæti fasteigna frá „Kringlumýrarbraut og niður að Hofsvallagötu munu hækka um 15 í kjölfar byggðar í Vatnsmýrinni“. Það gerist vegna þess að þétt menningarborg, miðstöð stjórnsýslu, fjármála, menningar og verslunar, þar sem arðbærasta starfsemin í samfélaginu fer fram, er verðmætari en dreifðar blokkarbyggingar úthverfanna. Þetta hef ég bent á áður.

Þetta myndi blessunarlega hafa það í för með sér að skörp skil yrðu á milli Borgarinnar með stórum staf og svo úthvefanna og fólksins sem þar lifir.

En það er ekki nægjanlegt að byggja í Vatnsmýrinni. Það þarf líka að koma í veg fyrir að druslað verði upp svokölluðum „mislægum gatnamótum“ við Kringlumýrarbraut.

Sunday, February 27, 2005

Heiðingjar

Það er sorglegt við þá tíma sem við nú lifum hve heiðindómur hvers konar veður uppi. Kristin gildi og siðferði eiga á sama tíma undir högg að sækja. Í sjónvarpsþættinum "Silfur Egils" mætti Jón Valur Jensson guðfræðingur ungum heiðingja sem vill meina börnum að finna Jesúm Krist.

Jón Valur var rökvís í sínum málflutningi og fór svo að ungi heiðinginn varð alveg rökþrota.

Tuesday, February 15, 2005

Uppbygging við Laugaveg

Nú stendur fyrir dyrum að rífa niður gömlu hjallana við Laugaveginn og byggja vönduð hús í staðinn. Það er tími til kominn.

Ég man þá tíð þegar mussuliðið stóð í veginum fyrir eðlilegri endurnýjun og uppbyggingu í miðbænum. Ég minnist orðaskaks við jafnaldra mína sem komu í veg fyrir að Bernhöftstorfan væri fjarlægð. Fyrir ca 40 árum voru voru settar fram hugmyndir á skipulagi sem gerðu ráð fyrir eðlilegri endurnýjun miðborgarinnar. Því miður urðu þær að engu.

Afleiðingarnar þekkjum við. Borgin var send í sveit, ef svo má að orði komast. Miðborginni hnignaði. Þótt mér sé ekki vel við það þá verð ég að viðurkenna að hér er R- listinn að standa sig vel.

Saturday, February 12, 2005

Alþingi í Smáralind?

Nú hefur einhverjum ungum manni sem settist á Alþingi eftir síðustu kosningar ákveðið að bera fram tillögu um að karlkyns þingmenn skuli ekki ganga snyrtilega til fara.

Sigríður skrifar góða athugasemd við stórgóðan pistin Egils Helgasonar og lýsir réttilega yfir vanþóknun á „flíspeysuvæðingunni“ og lágkúrunni sem ríður nú alls staðar húsum:

„Ætlaði að fara að segja að bráðum verði komið leikhús í Smáralindina þar sem fólk fer með Hagkaupspokana sína í strigaskónum að horfa á leikrit. Þetta er bara ekkert bráðum, þetta er svona nú þegar!“

Orð í tíma töluð.

En ef til vill er skammt í það að þingfundir verði haldnir á Smáralindinni, þegar hlé er á Idol söngvakeppninni, og megi sjá þingmenn í flíspeysum með bónuspoka.

Thursday, February 10, 2005

Annir og veikindi

Mér þykir það leitt hve latur ég hef verið að "blogga" upp á síðkastið. Mér til málsbóta hef ég að miklar annir hafa verið hjá mér á stofunni undanfarinn mánuð. Alltaf bætast við verkefnin enda fer gott orð af mér og félögum mínum. Ofaní kaupið fékk ég svo flensu og lá rúmfastur í rúma viku. Nú er liðin vika síðan ég mætti aftur til starfa og er ég allur hressari.

Sunday, January 09, 2005

Ekkert um flugvöllinn

Egill Helgason birti í gær nýjan pistil á visir.is. Hann minnist ekki einu orði á flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Ég vona að Egill sé ekki búinn að gefast upp á baráttunni, henni má aldrei linna. Sjálfur hef ég ekki þrek til að standa í þessu einn.

Saturday, January 08, 2005

Sigurhugtakið

Guðmundur Steingrímsson segir að STAÐFESTA sé sigurvegarinn í hugtakakeppni síðasta árs. Gott að vera í sigurliðinu.

Wednesday, January 05, 2005

Platon ríður húsum

Fyrir margt löngu var uppi á dögum í Grikklandi maður sem hét Platon. Hann skrifaði margar bækur og var mikill besservisser.

Platon var heildarhyggjumaður. Hann þeirrar skoðunar að taka ætti ung börn af foreldrum sínum og uppeldi þeirra skyldi vera í höndum ríkisins. Þar með mætti uppræta öll mein samfélagsins. Hugmyndir hans þykja fáránlegar nú til dags. Eða hvað? Erum við e.t.v. stödd ekki svo fjarri hugsýn Platons? Getur verið að sporgenglum hans, heildarhyggjumönnunum, hafi tekist að byrla okkur hugmyndum hans svo lítið bæri á?

Bæði biskup og forsætisráðherra gerðu upplausn fjölskyldunnar að umtalsefni í áramótaávörpum sínum. Þeir bentu á að uppeldi barna væri „outsourced“, það væri fengið aðilum utan fjölskyldunnar - oftast opinberum aðilum. Þar eru hreinar sálir saklausra barna okkar mótaðar og þar er tekið fram fyrir hendurnar á foreldrunum. Þetta er ekki svo fjarri því sem Platon vildi!

Egill Helgason ritar í dag snilldar grein um borgarmálin. Þar heldur hann fram frjóum hugmyndum sem allt of sjalnast heyrast:

„Sjálfstæðismenn ættu að taka sig taki og reyna að koma fram sem nútímalegt, borgarmiðað stjórnmálaafl - leggja fram alvöru hugmyndir um eflingu borgarsamfélagsins, uppbyggingu Vatnsmýrarinnar, hvernig og hvert borgin á að vaxa. Til dæmis má hæglega tengja þetta við umræðuna um hnignun fjölskyldunnar. Betra skipulag þýðir minni þeyting milli fjarlægra bæjarhluta, meiri tíma til að vera með fjölskyldunni, minni upplausn.“