Sunday, October 31, 2004

Ánægjulegar skoðanir

Það er alltaf ánægjulegt þegar maður uppgötvar að maður er ekki eins einn í heiminum með skoðanir sínar og maður heldur. Þessi maður mælir af skynsemi.

Hættur framundan

Í næstu viku munu mikilvægir hlutir ráðast. Í fyrsta lagi mun stærsta lýðræðisþjóð veraldarsögunnar ganga að kjötborðinu og velja sér forseta. Við skulum öll sameinast í bæn um að Bush forseti verði valinn eins glæsilega og fyrir fjórum árum.

Í annan stað verða greidd atkvæði um miðlunartillögu Ríkissáttasemjara í vinnudeilu kennara. Það væri mjög óábyrgt af sveitarfélögum að samþykkja þessa tillögu.

Thursday, October 28, 2004

Annir og ótti

Það hafa verið miklar annir hjá mér á stofunni undanfarna dag. Það hefur komið í veg fyrir skrif mín á þessum vettvangi. Mér þykir það miður. Ég ætla að bæta úr því um helgina.

Nú heyrði ég í útvarpinu áðan að Ríkissáttasemjari hefði lagt fram miðlunartillögu. Ég hef satt að segja miklar áhyggjur af því að hún feli í sér gífurlegar launahækkanir til handa kennurum. Það kann að valda óbætanlegum skaða fyrir samfélagið. Jafnvel styrkasta ríkisstjórn á erfitt með að tryggja efnahagslegan stöðugleika undir slíkum kringumstæðum. Þar að auki hef ég almennar efasemdir um miklar launahækkanir kennara sbr fyrri skrif mín.

Tuesday, October 26, 2004

Átök í úthverfum

Ég las það í DV áðan að brostist hefðu út átök í einu úthverfanna á milli Íslendings og manns frá Mið-Austurlöndum. Segir þetta ekki allt sem segja þarf?

Monday, October 25, 2004

Móbíl þjóð

Íslendingar eru móbíl þjóð. Ég kysi heldur að hún væri stabíl. Það væri betra.
Hugum að sögunni. Iðnbyltingin ölli mikilli röskun á samfélaginu og högum fólks. Vissulega hafði hún ýmsa kosti, því verður ekki neitað, en fólk virðist ótrúlega fljótt að gleyma því illa sem af henni leiddi.

Áður en þessi „bylting“ reið yfir sat fólk að búum sínum og sinnti sínu. Því fylgdi sjaldnast flækingur og upplausn. Með iðnbyltingunni flosnaði fólk upp af búum sínum og flutti í soll borganna. Það líf sem þar var lifað veitti ekki ákjósanlega siðferðilega umgjörð. Þar seldu menn vinnuafl sitt hæstbjóanda í stað þess að standa sína plikt gagnvart búinu og landeiganda. Borgirnar urðu enda gróðrarstía siðspillingar og ólifnaðar. Þetta þekkjum við Íslendingar. Menn flosnuðu upp úr sveitinni og gerðust tómthúsmenn með tilheyrandi upplausn og siðspillingu. Lífið og starfið í sveitinni myndað umgjörð sem hlúði að siðlegri breyttni. Sennilega hefur það ýtt frekar undir þessa þróun hvað Íslendingar hafa ávallt verið móbílir. Þannig áttu menn það til að flakka yfir hálft landið til þess eins að fara á vertíð. Ákjósanlegra væri að menn hefðu verið stabílir og staðfastir.

Í Evrópu sneiddu menn hjá ýmsum vanköntum iðbyltingarinnar. Þar höfðu borgir þegar fest rætur áður en iðnvæðingin hófst. Borgir voru skipulagðar með þeim hætti að hverfin sem verkamennirnir bjuggu í voru í námunda við verksmiðjurnar. Verkamennirnir gengu því hæglega til vinnu sinnar. Þannig gátu heilu kynslóðirnar lifað án þess að þurfa að ferðast svo mikið sem í örfárra kílómetra radíus frá heimili sínu allt sitt líf. Þetta tryggði festu í samfélagsgerðinni og hindraði upplausn. Slátrarinn, bakarinn og grænmetiskaupmaðurinn sinntu viðskiptum á torgum hvert fólkið úr nágrenninu sótti bjargir sínar. Ekkert var um óþarfa flandur og lausung. Þannig var þetta langt fram á 20. öldina. Þá tók ógæfan að ríða yfir. Einkabíllinn svokallaði varð nauðsynlegur hlutur á hverju almúgaheimili. Fólki dugði þá ekki lengur að eiga sitt líf í sínu hverfi heldur tók að flandra um. Ferðast í aðra borgarhluta og á ströndina með tilheyrandi lausung.

Lausungin hefur hins vegar verið systir okkar Íslendinga alla tíð. Þvælingur og förumennska hefur því miður alltaf einkennt okkar samfélag. Þetta birtist ekki hvað síst í því hvernig bærinn okkar, hún Reykjavík, hefur verið togaður og teygður á alla enda og kanta. Þetta hefur svo leitt til samfélagslegrar úrkynjunar.

Saturday, October 23, 2004

Miklar annir

Það hafa verið miklar annir hjá mér á stofunni undanfarna daga. Þær hafa gert það að verkum að ég hef ekki séð mér fært að tjá mig á þessum vettvangi. En þátttaka í opinni umræðu er mér mikils virði enda opin umræða einn hornsteina samfélagsins.

Það er ýmis málefni sem ég þarf að að fjalla um. Kennaraverkfallið leiðir hugann að því hvort þessi hugmynd um skólaskyldu eigi yfir höfuð rétt á sér. Heimspekingurinn Platon kom fram með þær hugmyndir að ríkið sæi alfarið um uppeldi barna. Platon þessi hefur veitt róttæklingum innblástur fram á þennan dag. Hugmyndin um skólaskyldu er dæmi um það hvað hugmyndir Platons hafa náð mikilli fótfestu. Börn eru í raun tekin af foreldrum sínum og hið opinbera annast uppfræðslu þeirra og uppeldi. Það er fyllsta ástæða til að setja spurningu við þetta fyrirkomulag. Sú spurning verður áleitnari þegar hinu opinbera tekst ekki að reka þetta skammlaust.

Ég get farið nánar út í þau slæmu áhrif sem börn og ungmenni verða fyrir í skólanum. Bæði þann slæma félagsskap sem þau geta lent þar í en ekki síður þá mikli innrætingu sem þar fer fram. Geri það síðar.

Tuesday, October 19, 2004

Gamansemi

Það er ánægjulegt að vera þátttakandi í þeirri opnu umræðu sem fram fer á netinu. Hér geta menn skipst á skoðunum, "linkað" hverjir á aðra svo úr verður deigla hugmynda.

Nokkur viðbrögð hafa verið við skrifum mínum og kann ég því vel. Sumir hafa gert kímni mína eða "húmor" að umtalsefni. Til dæmis þessir, þessi, þessi og þessi gerði grín að umtalsefni í "kommenti" hjá mér um daginn.

Nú hef ég löngum vitað að ég er mikill "húmoristi", um það geta gamlir skólabræður vitnað og svo náttúrulega konan mín og sonurinn. Ég get setið tímunum saman og sagt gamansögur. Það kom mér nokkuð á óvart að menn fóru að gera kímni mína að umtalsefni, ég taldi mig ekki hafa farið neitt út í þá sálma á þessum vettvangi.

Mér sárnaði því nokkuð þegar mér skildist að einhverjir teldu að skrif mín væru einhvers konar grín. Vissulega eiga skoðanir eins og mínar ekki mikinn hljómgrunn í samfélaginu. Þó finn ég samhljóm með ýmsum t.d. Hauki Loga Karlssyni, Kolbrúnu Halldórsdóttur og íhaldsmanninum unga sem gert hefur samfélagslega úrkynjun að umtalsefni. Ég skil ekki af hverju sumir telja að ég sé að grínast. Eru skoðanir eins og mínar ekki teknar alvarlegar en það? Telja menn ef til vill að dómsmálaráðherrann sé líka að grínast? Er fokið í öll skjól?

Saturday, October 16, 2004

Agaleysi og illkvittni

Fjölskyldan fór í Smáralindina í gær. Úff. Þarna var öðru vísi fólk en maður sér og umgengst dags daglega. Það sem blasti við okkur þar voru hóparnir af illa hirtum börnum og unglingum, sennilega úr nærliggjandi úthverfum, sem virtust vera í fullkomnu reiðileysi í kennaraverkfallinu. Þau áttu það sameiginlegt að hárið var illa hirt og fötin sem þau gengu í voru furðuleg. Þótt fólk búi e.t.v. ekki við mikil efni þá finnst mér að það geti a.m.k. snyrt börnin sín áður en það sendir þau út. Einnig áttu börnin greinilega margt ólært um mannasiði.
Við áttum ekki langa dvöl þarna (þó of langa) og ég þvertók fyrir að konan keypti þessi móðinsföt á strákinn.


Í Fréttablaðinu í gær á blaðsíðu tvö var athyglisverð frétt með fyrirsögninni "Agaleysi og eltingaleikur í Egilshöll". "Egilshöll" er einhvers konar afþreyingarhús í útjaðri bæjarins sem hefur verið í fréttum undanfarið vegna áfengissölu. Í fréttinni segir frá aga- og reiðileysi barna vegna kennaraverkfallsins. Börnin brúki munn, taki ekki tilsögn og skemmi muni. Svo fast kvað að þessu hátterni að kalla þurfti til lögreglu til að fjarlægja nokkra pörupilta. Þetta kemur heim og saman við reynslu mína í Smáralindinni. Hér sjáum við dæmi um samfélagsúrkynjunina sem ég hef gert að umtalsefni áður ásamt fleirum.

Dómsmálaráðherrann ritar á heimasíðu sína skeleggur að vanda. Hann gerir að umtalsefni illkvittnina sem nýr hæstaréttadómari mætir hvarvetna. Nú var það Pétur Þorsteinsson "prestur" hjá "Óháða söfnuðinum" sem reyndi að ata nýja dómarann auri. Annars voru einhver fleiri níðskrif í Morgunblaðinu um dómarann fyrr í vikunni sem ég man ekki lengur hver voru og ráðherran sennilega ekki heldur fyrst hann minnist ekki á þau.

Friday, October 15, 2004

Kringlan og Smáralind

Konan hringdi áðan. Hún stakk upp á því að við færum ásamt syninum í verslanamiðstöðvarnar Kringluna og Smárann síðdegis. Hún ætlar að kaupa móðinsföt á soninn, hann hefur ítrekað óskað eftir slíkum fatnaði. Ég hef oft komið í Kringluna, sérstaklega þegar hún var nýopnuð, en ekki oft í Smáralindina. Þetta á eftir að verða svolítið ævintýri fyrir fjölskylduna.

Wednesday, October 13, 2004

Póstfang

Ég er ekki mikill tæknimaður. En með aðstoð sonar míns tókst mér að setja netfang hér í hornið efst til vinstri. Nú er ég að verða eins og hinir.

Tuesday, October 12, 2004

Annir

Það hafa verið mikilar annar á stofunni hjá mér undanfarna daga. Þess vegna hef ég ekki átt þess kost að opna "blogger" og skrifa niður huleiðingar mínar.

Mér þykir ánægjulegt að sjá viðbrögð við skrifum mínum og fá "comment" eða athugasemdir. Íhaldsmaðurinn ungi sem ég hlekkjaði um daginn gerir skrif mín að umtalsefni. Við deilum skoðunum á skipulagsmálum, en hann hefur tjáð sig skelegglega um þau. Svo gerir hann kímnigáfu mína líka að umtalsefni. Konan mín og gamlir vinir þekkja svo sannalega til hennar en ég hélt að hún kæmi ekki fram í skrifum mínum hér.

Annar ungur íhaldsmaður skrifar ánægjulega athugsemd við skrif mín og er ég mjög glaður yfir því.

En svo eru alltaf til einhverjir nafnlausir dónar sem þurfa að ata heiðarlegt fólk auri. Þetta er kannski einn af þeim nafnlausu dónum sem skrifar reglulega á "málefnin"

Saturday, October 09, 2004

Samfélagsleg úrkynjun

Það er ánægjulegt að fylgjast með því hvernig þjóðfélagsumræðan leggur undir sig nýjan miðil. Virk þátttaka í þeirri umræðu er ekki bundin við greinaskrif þeirra sem fá birt eftir sig efni í dagblöðunum.

Í dag rakst ég á skynsöm skrif á þessari síðu . Þarna ritar maður sem virðist sammála því sem ég hef skrifað nokkrum sinnum fyrr á þessum vettvangi .

Þessi bloggari kemst vel að orði þegar hann segir "úthverfavæðingin skili sér í samfélagslegri úrkynjun" . Þetta blasir við þegar ekið er austur fyrir Kringlumýrarbraut.Það geri ég í hvert sinn er ég fer austur í bústað.

Er þetta úrkynjunin sem við viljum sjá?

Wednesday, October 06, 2004

Kristileg íhaldssemi

Á vefritinu "Deiglan.com" birtist í dag fróðleg grein um þá jákvæðu þróun sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum undanfarna áratugi.

Hér á Íslandi og víða í Evrópu hefur afhelgun og múgmennska gegnsýrt samfélagið. Bandaríkjamönnum hefur tekist að standa fast gegn þessari hningnun í sínu landi. Þar býr enn Guðhrætt og vammlaust fólk. Í Deiglugreininni kemur fram að trúin gegnir mikilvægu hlutverki í lífi meira en 60% þjóðarinnar og meira en helmingur hennar áttar sig jafnframt á tilvist djöfulsins.

Þá veit sama hlutfall Bandaríkjamanna að hlutverk ríkisins er að sjá til þess að fólk hafi frelsi til ná markmiðum sínum.

Einnig segir Deiglan:

"Í Bandaríkjunum er hlutfall þeirra sem hafa 40% eða minna af meðaltekjum þrefalt fleiri en í Bretlandi. Miljónamæringar eru einnig mun fleiri í Bandaríkjunum" enda eru "Tæplega 90% Bandaríkjamanna [...] mjög stolt af þjóðerni sínu."

Við Íslendingar höfum enn tækifæri til að snúa frá villu okkar

KB banki styður mitt mál

Aftur fær ég staðfestingu á því sem ég hef haldið fram í fyrri skrifum mínum, sbr. færsluna hér að neðan. Sósjalisminn sem ríkt hefur í fjármálalífi þjóðarinnar hefur niðurgreitt húsnæði undir fólkið í úthverfunum árum saman, eins og KB banki bendir á í dag. Svo vill þetta fólk fá enn frekari niðurgreiðslu í formi sífellt breiðar og breiðari gatna svo það geti komist í miðbæinn þegar því hentar!

Tuesday, October 05, 2004

Miðbærinn er aldrei ókeypis

Ekki er ég sammála þeim ungu flokkssystkynum mínum sem mótmæla "frestun" mislægra gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar.

Ég hefði haldið að þau ættu að vita manna best að miðbærinn er aldrei ókeypis

Sunday, October 03, 2004

Afhelgun samfélagsins

Vikan var annars að mörgu leyti sorgleg þegar litið er til atburða vikunnar. Á föstudag kom Alþingi saman, að öllu jöfnu er það hátíðlegur dagur í vitund þjóðarinnar. En svo var ekki að þessu sinni.

Hópur guðleysingja gerði sér leik að því að rifja upp þann sorglega atburð þegar ógæfumaður hér í borg sletti skyri á þingheim, biskup og forseta fyrir mörgum árum. Þessi ungi maður lýsir af fullkomnu blygðunarleysi öllum smáatriðum hryðjuverksins.

En þetta var því miður ekki það eina sorglega við þennan dag. Forseti Alþingis gerði réttilega að umfjöllunarefni í setningarræðu sinni þá aðför að þinginu sem átti sér stað á liðnu sumri. Þar gagnrýndi hann það að maður utan þingsins reyndi að taka sér guðlegt vald og setja ofaní við réttkjörið þing þjóðarinnar. Bregður þá svo við að nokkrir andstöðuþingmenn standa upp og ganga úr þingsal. Sem betur fer höfum við ennþá Morgunblaðið til að setja ofaní við menn sem haga sér með þessum hætti. Hvers konar þingmenn eru það sem ekki standa með forseta sínum þegar hann bregst til varnar þinginu sem þeir sitja? Það eru menn lítilla sanda og lítilla sæva.

Þessir tvær sorlegu atburðir föstudagsins eiga rætur að rekja til afhelgunarinnar sem átt hefur sér stað í samfélaginu. Ungir menn afneita Guði og maður utan þingsins þykist vera guð.

Gangsterar í liðinu

Í liðinni viku sáu framsóknarmenn sér ekki annað fært en svipta Kristinn H. Gunnarsson öllum trúnaðarstöðum fyrir þingflokkinn.

Þetta kemur ekki á óvart. Þingmennska er ekki vettvangur fyrir einleikara og egóista.

Það þarf svo sem ekki að koma á óvart að fullt af fólki rísi upp á afturlappirnar og mótmæli.

Hver vill hafa gangstera í liðinu sínu?