Tuesday, November 30, 2004

afturhaldskommatittir

Það er með ólíkindum hvað þessir vinstri menn geta endalaust reynt að gera lítið úr þeirri miklu kjarabót sem skattalækkanir ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar eru.

Í dag heyrði ég einn vinstrimann segja: "Hvernig kemur þetta út fyrir fimmtugan öryrkja sem drekkur einn pela af sterku víni á dag?"

Thursday, November 25, 2004

Þjóðsöngur

Alveg tek ég heils hugar undir málflutning þeirra framsæknu þingmanna sem lagt hafa fram þingsályktunartillögu um nýjan þjóðsöng. Þjóðsöngurinn, Ó, guð vors lands, er mörgum svo erfiður til söngs að afar hæpið er að hann geti að öllu leyti þjónað hlutverki sínu. Það er mikilvægt að þjóðsöngur hafa skýra og ótvíræða vísun til Almættisins. En það er ekki nóg. Hann þarf einnig að skýrskota til þjóðernis og þjóðernisástar, auk ástar á landinu. En síðast en ekki síst þarf lagið að vera grípandi, allir þurfa að gera tekið undir, að minnsta kosti í viðlaginu. Þingmennirnir víðsýnu og framsæknu benda á ljóðin og lögin við Ísland ögrum skorið og Ísland er land þitt, mér þykja það góðar hugmyndir. Einnig mætti athuga hvort "17. júní" gæti ekki sómt sér vel sem þjóðsöngur, það mætti lagfæra textan örlítið þannig að Almættið komi við sögu.

Wednesday, November 24, 2004

...lifa þar fáir og hugsa smátt

Ég les stundum vefsíðuna "deiglan.com". Mér þykir nú oftast sem þeir sem þar skrifa séu heldur frjálslyndir. Stundum hitta þeir þó naglann á höfuðið. Alveg er ég innilega sammála grein sem þar birtist í gær.

Þar er fjallað um brúarsmíði í Reykjavík. Um nokkra hríð hefur verið rætt um að leggja brú yfir Sundin. Það væri þarft framtak. Mér leiðist alltaf að aka í gegnum úthverfin þegar ég fer út úr bænum.

Deiglupenninn gagnrýnir mat Skipulagsstofnunar að lágreist brú innarlega í Kleppsvíkinni verði betri en kostur en háreist brú utarlega í víkinni. Þessu er ég sammála. Bæði er það slæmt að þurfa að langt austur eftir borginni til að komast að brúnni, í annan stað myndi stór og háreist brú frá Laugarnestanga og yfir á Kjalarnesið vera glæsilegt mannvirki sem gæti orðið tákn borgarinnar.

Tuesday, November 23, 2004

Ekki andlaust blogg

Margir hafa komið að máli við mig og haft orð á því að ég skrifi ekki nógu oft hér á "bloggið". Víst kann ég vel að meta þessa hvatningu og þann áhuga sem menn sýna skrifum mínum. Ég hef þó einsett mér að skrifa ekki nema ég hafi eitthvað markvert fram að færa. Mér þykir sem sumir "bloggarar" skrif á stundum til þess eins að skrifa og andleysi einkenna færslurnar. Þannig er það ekki með mig.

Sunday, November 21, 2004

Gull í mýrinni

Í gær þurfti ég að bíða nokkra stund á biðstofu. Þar var ekkert við að vera annað en lesa DV sem ég sé annars aldrei. Þar var vönduð grein eftir Egil Helgason sjonvarpsmann. Hann fjallar meðal annars um Vatnsmýrina og byggð þar í framtíðinni. Það er mikilvægt að Vatnsmýrin verði byggð sem fyrst svo við getum byggt heilbrigt samfélag vestan Snorrabrautar.

Vatnsmýrin er einhver mesta auðlind þjóðarinnar. Það er ekki gott að borgaryfirvöld skuli láta Landspítalanum fá landspildur endugjaldslaust tugmilljarða að verðmæti

Wednesday, November 17, 2004

Endanleg lausn grunnskólavandamálsins

Nú er grunnskólavandinn leystur, svona að nafninu til að minnsta kosti. Það er þó varla hægt að kalla þetta með réttu "lausn". Til þess hefur þessi samningur of slæmar afleiðingar fyrir samfélagið eins og ég hef áður bent á.

Ég held að það þurfi að nálgast vandann frá öðru sjónarhorni. Sum sveitarfélög eru eðlilega mun betur sett fjárhagslega en önnur. Þar býr fólk sem stundar verðmætaskapandi vinnu, greiðir hátt útsvar og há fasteignagjöld af dýrum eignum sínum. Það er því ekki eðlilegt að þetta fólk þurfi að líða fyrir það, með sífelldum verkföllum hjá sínum börnum, að önnur sveitarfélög geti ekki greitt kennurum laun.

Ég tel að réttast væri að fasteignagjöld og útsvar í hverju skólahverfi verði notað til rekstrar viðkomandi skóla. Í sumum hverfum býr fólk með góðar tekjur og á verðmætar fasteignir, fyrir vikið greiðir það hærra útsvar og fasteignagjöld. Það er ekki nema sanngjarnt að fólkið fái að njóta þess. Þessir skólar gætu borgað sínum kennurum betri laun.

Þarfir fólks eru mismunandi og við þurfum alltaf að huga að því í skipulagi að viðhalda ákveðnu jafnvægi. Sumt fólk kýs að búa í ódýru húsnæði í úthverfum, slíkt fólk leggur síður upp úr menntum svo sem einkunnir á samræmdum grunnskólaprófum sína, það er því engin þörf á að eyða miklu fé til skólahalds á slíkum stöðum. Aðrir kjósa að búa á betri stöðum, í hringiðu menningar og lista, og leggja meira upp úr menntun. Þar eru fasteignir verðmætar og þar greiðir fólk hærra útsvar. Þar eru því fyrir hendi fjármunir til að greiða kennurum nægjanleg laun til að þeir leggi ekki þráfaldlega niður vinnu. Á öðrum stöðum, þar sem útsvarstekjur eru lægri og verðmæti fasteigna minna og því minna fé til ráðstöfunar til skólanna, mætti ráða fólk sem sætti sig við heldur lægri laun enda væru ekki gerðar sömu kröfur.

Tuesday, November 16, 2004

Steinunn er víst góður borgarstjóri

Ýmsi, bæði vinir og kunningjar, hafa komið að máli við mig á förnum vegi og jafnvel haft samband símleiðis og kvartað við mig undan yfirlýsingum mínum um nýjan borgarstjóra.

Þeir hafa sagt að maður eins og ég geti ekki verið þekktur fyrir að lýsa yfir velþóknun á borgarstjóra r - listans.

Ég hef mótmælt og svarað fullum hálsi. Ég stend við fyrri yfirlýsingar. Steinunn Valdís er góður borgarstjóri. Auk þess að hafa staðið sig vel í skipulagsmálunum vil ég minna á að hún hefur sýnt mikla staðfestu í kennaramálinu.

Monday, November 15, 2004

Dónablogg

Mér er gjörsamlega ofboðið með skrifum af þessu tagi. Mér finnst þarna illa vegið að glæsilegum borgarstjóra. Þetta er ekkert annað en dónaskapur.

Saturday, November 13, 2004

Líst vel á nýjan borgarstjóra

Ég tók eftir því þegar ég las blaðið áðan að það er kominn nýr borgarstjóri í Reykjavík. Mér hefur ekki alls kostar líkað við það fólk sem setið hefur í því embætti um nokkurra ára skeið. Því er öfugt farið með þessa ungu konu sem nú er sest í borgarstjórastólinn. Mér líst ljómandi vel á hana. Sérstaklega kann ég við hugmyndir hennar og verk í skipulagsmálum borgarinnar, samanber fyrri skrif mín

Wednesday, November 10, 2004

Tíðindalaust

Það er með ólíkindum hvað lítt ber til tíðinda í samfélaginu um þessar mundir. Ég minnist ekki annars eins. Sveitarfélögin höfnuðum sem betur fer miðlunartillgöu sáttasemjara. Hún hefði sett allt á annan endan í hagkerfinu auk þess sem hún var siðlaus með öllu.

Saturday, November 06, 2004

Munur á siðferði

Það er athyglisvert að bera saman Bandaríkin og Evrópu þegar kemur að siðferði. Bandaríkjamenn velja sér mann í embætti forseta sem hefur kristin gildi í hávegum. Evrópska þingið hafnar manni í framkvæmdastjórn evrópusambandsins sem lýsir yfir kristnum gildum sínum.

Wednesday, November 03, 2004

Sigur siðferðisins

Það eru ánægjuleg tíðindi sem nú berast vestan frá Bandaríkjunum. Allt stefnir í að Bush forseti hafi hlotið kosningu öðru sinni.

Í Bandaríkjunum skipta siðferðileg gildi miklu máli í samfélaginu. Það er sjaldgæft að maður hitti betra og grandvara fólk en í þeim fylkjum þar sem Bush fór með sigur af hólmi. Þar hagar fólk atkvæði sínu á grundvelli siðferðis. Það skýrir án efa úrslitin sem nú liggja fyrir.


Monday, November 01, 2004

Álklaustur á Austurlandi

Það eru ángægjuleg tíðindi sem berast austan að landi. Í tengslum við byggingu nýs álvers hefur kviknað sú hugmynd að stofna klaustur. Um er að ræða munka af reglu heilags Kapúsín. Reglan helgar sig hugleiðingu fagnaðarerindisins og iðkar fátækt í lífsstíl, byggingu og búnaði húsa sinna og kirkna. Munkarnir störfuðu lengi í Slóvakíu, en klaustrum þeirra var lokað við valdatöku kommúnista.

Þeir sem hafa átt þess kost að ferðast um hina kristnu Evrópu hafa flestir átt þeirri gæfu að fagna að heimsækja klaustur. Víða hafa munkar helgað sig einhverri iðju samhliða helgihaldinu til að sjá sér farborða. Þannig eru til klaustur sem eru þekkt fyrir vínframleiðslu sína, önnur fyrir skósmíðar, trésmíði og þannig mætti lengi telja.

Það væri vel til fundið ef á Íslandi yrði stofnað klaustur sem gæti sér gott orð fyrir áliðju. Þar gætu munkarnir iðkað trú sína og helgihald jafnframt því sem þeir iðkuðu fátækt og stunduðu álbræðslu.