Sunday, October 02, 2005

Aðförin að Morgunblaðinu

Mikið fár hefur riðið yfir okkar litla samfélag undanfarið. Málið hófst með þeim hætti að auglýsingablað, sem stórverslunanir bera í hús til að kynna vörur sínar en inniheldur auk þess ýmsa fróðleiksmola á milli auglýsinga, tók að birta svokallaða „tölvupósta“ sem farið höfðu á milli ritstjóra Morgunblaðsins og fólks úti í bæ sem leitað hafði til hans.

Æsingamenn hafa reynt að láta svo líta út sem þessir tölvupóstar leiði í ljós pólitískt samsæri. Staðreyndin er hins vegar sú að ekkert slíkt er hægt að lesa úr þessum plöggum. Veturinn og vorið 2002 höfðu ritstjóra Morgunblaðsins borist gögn sem bentu til vafasamra viðskiptahátta fyrirtækis nokkurs. Í stað þess að rjúka upp til handa og fóta og birta þau gögn, eins og slúðurblöð gera, tók ritstjórinn af málinu af yfirvegun og staðfestu. Hann ræddi málið við nána ráðgjafa sína um hvernig mætti uppræta slæma viðskiptahætti. Mogunblaðið er ekki dagblað í hefðbundinni merkingu þess orðs. Það er ein af grundvallarstoðum samfélagsins líkt og Hæstiréttur og Þjóðkirkjan. Það hreykir sér ekki, það efnir ekki til æsinga. Þess vegna birtir Mogunblaðið ekki allt sem það veit, það er lesendum þess ekki til góðs. Í stað þess ráðfærir það sig við góða menn og reynir að koma góðu til leiðar án þess að hrópa á torgum. Það er því í hæsta máta eðlilegt að menn setjist niður og tali saman um hvernig uppræta megi götstrákshátt í viðskiptum.

Niðurstaðan er: tölvupóstarnir ljóstra ekki upp um neitt nema að góðir menn gripu til heilbrigðra ráðstafana.

Birting tölvupóstanna ljóstraði hins vegar upp um aðra og ljótari hluti. Það er að nú tíðkast að þjófstela einkagögnum fólks og birta. Slíkt sýnir okkur hve siðferði fer hrakandi.