Sunday, February 27, 2005

Heiðingjar

Það er sorglegt við þá tíma sem við nú lifum hve heiðindómur hvers konar veður uppi. Kristin gildi og siðferði eiga á sama tíma undir högg að sækja. Í sjónvarpsþættinum "Silfur Egils" mætti Jón Valur Jensson guðfræðingur ungum heiðingja sem vill meina börnum að finna Jesúm Krist.

Jón Valur var rökvís í sínum málflutningi og fór svo að ungi heiðinginn varð alveg rökþrota.

Tuesday, February 15, 2005

Uppbygging við Laugaveg

Nú stendur fyrir dyrum að rífa niður gömlu hjallana við Laugaveginn og byggja vönduð hús í staðinn. Það er tími til kominn.

Ég man þá tíð þegar mussuliðið stóð í veginum fyrir eðlilegri endurnýjun og uppbyggingu í miðbænum. Ég minnist orðaskaks við jafnaldra mína sem komu í veg fyrir að Bernhöftstorfan væri fjarlægð. Fyrir ca 40 árum voru voru settar fram hugmyndir á skipulagi sem gerðu ráð fyrir eðlilegri endurnýjun miðborgarinnar. Því miður urðu þær að engu.

Afleiðingarnar þekkjum við. Borgin var send í sveit, ef svo má að orði komast. Miðborginni hnignaði. Þótt mér sé ekki vel við það þá verð ég að viðurkenna að hér er R- listinn að standa sig vel.

Saturday, February 12, 2005

Alþingi í Smáralind?

Nú hefur einhverjum ungum manni sem settist á Alþingi eftir síðustu kosningar ákveðið að bera fram tillögu um að karlkyns þingmenn skuli ekki ganga snyrtilega til fara.

Sigríður skrifar góða athugasemd við stórgóðan pistin Egils Helgasonar og lýsir réttilega yfir vanþóknun á „flíspeysuvæðingunni“ og lágkúrunni sem ríður nú alls staðar húsum:

„Ætlaði að fara að segja að bráðum verði komið leikhús í Smáralindina þar sem fólk fer með Hagkaupspokana sína í strigaskónum að horfa á leikrit. Þetta er bara ekkert bráðum, þetta er svona nú þegar!“

Orð í tíma töluð.

En ef til vill er skammt í það að þingfundir verði haldnir á Smáralindinni, þegar hlé er á Idol söngvakeppninni, og megi sjá þingmenn í flíspeysum með bónuspoka.

Thursday, February 10, 2005

Annir og veikindi

Mér þykir það leitt hve latur ég hef verið að "blogga" upp á síðkastið. Mér til málsbóta hef ég að miklar annir hafa verið hjá mér á stofunni undanfarinn mánuð. Alltaf bætast við verkefnin enda fer gott orð af mér og félögum mínum. Ofaní kaupið fékk ég svo flensu og lá rúmfastur í rúma viku. Nú er liðin vika síðan ég mætti aftur til starfa og er ég allur hressari.