Friday, December 31, 2004

Gott viðtal

Ég get nú ekki sagt að ég taki að öllu jöfnu mikið mark á þessum auglýsingasnepli sem eigandi smásöluverlsunar einnar hér í borg lætur bera í öll hús.

Í Fréttablaðinu í dag er hins vegar athyglisvert viðtal við unga konu sem hefur haslað sér völl í kaupmennsku í miðborginni. Þar selur hún ýmis konar fallegan varning sem gleður hugi fólks með fágaðan smekk.

Hún lýsir viðhorgsbreytingu sem átt hefur sér stað í hennar lífi. „Áður fyrr hataði ég Ísland en það var bara af því að ég var ekki ánægð sjálf. Það sem spilaði eflaust inn í er að þá bjó ég í Breiðholti, núna er ég komin í miðbæðinn og búin að öðlast innri ró.“

Segir þetta ekki allt?

Wednesday, December 22, 2004

Ég er ekki einn!

Egill Helgason ritar enn um flugvöllinn og andmælir þeim áróðri sem utanbæjarfólk rekur í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að við getum áfram búið við blómlegu miðborgina okkar og hún fái að þroskast til jafns við aðra þætti samfélagsins.

Það er ánægjulegt að fylgjast með málefnalegri staðfestu Egils í þessu máli. Stundum finnst mér eins og Egill lesi huga minn svo sammála er ég því sem hann ritar sbr ýmis fyrr skrif mín.

Um daginn ritaði ég hér á „bloggið“ um gullið sem borgarbúar eiga í Vatnsmýrinni. Egill færir sterk rök fyrir því að verðmæti Vatnsmýrarinnar sé mun meira en áður hefur verið talið. „Eftir að komst á aukið frelsi í húsnæðisviðskiptum kann landið þar að vera miklu verðmætara en margan hugði.“

Egill stingur líka með snilldarlegum hætti upp í norðlenskan prófessor sem fyrir nokkrum dögum ritaði grein í dagblað hér í borg og lýsti ánægju sinni með það hve þægilegt væri að fá sér morgunkaffi á Oddeyrinni, fara svo í flugvél til Reykjavíkur og vera kominn aftur norður fyrir kvöldmat! Egill jarðar rök prófessorsins þegar hann segir að „ef flugvöllurinn hefði svipaða staðsetningu á Akureyri og í Reykjavík væri enginn Oddeyri - þar væri nefnilega flugvöllur.“ Málið er nefnilega það að Vatnsmýrin er einhver ákjósanlegasti vettvangur heimsborgaramenningar á sama hátt og Oddeyrin.







Sunday, December 19, 2004

Ungt utanbæjarskáld

Ég hélt satt að segja að utanbæjarskáldin væru liðin tíð. Hélt satt að segja að landsbyggðin gæti ekki af sér neina andansmenn lengur. Þar byggu fyrst og fremst útlendingar sem störfuðu við frumvinnslu, byggingarvinnu og fiskvinnslu og eitthvað svoleiðis.

En ungt utanbæjarskáld gerir skoðanir Egils Helgasonar um Reykjavíkurflugvöll að umræðuefni. Skáldið reynir að gera lítið úr þeirri lausn sem brotthvarf flugvallarins verði fyrir borgarsamfélagið. Það segir:

„Ég hef það aðallega á tilfinningunni að reykvíkingar séu svona skítóánægðir með miðbæinn sinn, að þetta sé eitt af síðustu hálmstránum - það verði hægt að stækka miðbæinn og þá hljóti hann að batna. Þetta er svona álíka lausn og álverið fyrir austan - því rétt eins og það var skortur á vinnuafli fyrir austan (en ekki skortur á vinnu), þá skilst mér að þjónustufyrirtæki flýji þennan litla miðbæ sem er í borginni fyrir - helst lengst upp í sveit. Meira pláss til að klúðra er ekkert sem bjargar miðbænum.“

Hér talar öfund utanbæjarmannsins gagnvart menningu borgarsamfélagsins. Eru reykvíkingar óánægðir með miðbæinn sinn? Ég hef áður tjáð mig um miðborgir og borgarsamfélag, s.s hér . Reykvíkingar eru stoltir af borginni sinn og þykir vænt um hana. Miðborgin blómstrar. Allar leiðir liggja til henna líkt og Rómar forðum. Þangað kemur fólk úr öllum áttum til að eiga viðskipti, hvort heldur til að kaupa sér trefil eða stór fjármagsviðskipti. Þar kemur fólk saman til að gera sér glaðan dag á fáguðum veitingastöðum og þar er miðstöð menningar og lista. Þar er deigla menningarinnar.

Ungskáldið segir:

„Eitt af því sem skilgreinir höfuðborg er að til hennar liggja allar aðalsamgönguæðar ... Þjóð sem tryggir ekki öruggar og góðar samgöngur við höfuðborg sína, á enga höfuðborg. Slík þjóð á bara borgríki innan landsteinanna.“

Þetta er rétt svo langt sem það nær. Reykjavíkurflugvöllur gegndi þessu hutverki á árum áður. Þá þurftu bændahöfðingjar oft að reka erindi sín í höfuðborginni, þeir sátu gjarnan á þingi. Sama má segja um sýslumenn sem oft voru líka þingmenn, einnig útgerðarmenn. Þetta voru höfðingjar í héraði og þátttakendur við stjórn ríkisins. Þetta á ekki við um samtíman (vissulega er mikil eftirsjá eftir þessum gamla tíma).

Höfuðborgin er sjálfbærari en hún var áður. Uppspretta menningarinnar er í henni sjálfri, hún þarf ekki að sækja eins mikið utan frá og áður, hvorki til landsbyggðarinnar né útlanda. Það er því ekki þörf á flugvellinum lengur.

Fáguð borgarbyggð í Vatnsmýrinni mun tryggja að Reykjavík verður áfram sú heimsborg sem hún er.

Sunday, December 12, 2004

Hugsjónagúngan

Egill Helgason skrifaði athyglisverða grein á vefinn nú um helgina (hún birtist víst líka í DV en ég les það aldrei).

Það sem Egill gerir að umfjöllunarefni er eitt af mörgum hnignunareinkennum okkar litla samfélags. Nú er Morgunblaðið að flytja út í móa. Sú var tíðin að blaðið var hornsteinn samfélagsins, það var boðferi festu og réttsýni í málefnum samfélagsins og staðsett í hjarta borgarinnar við Aðalstræti.

Nú er allt breytt. Frjálslyndar skoðanir vaða nú uppi í blaðinu og það er orðið einn helsti vettvangur fyrir svonefndan „póstmódernisma“ sem nú veður uppi í samfélaginu. Betra væri að blaðið hefði staðið fastar á sínum hugsjónum.

Það er tímanna tákn að blaðið flytji út í móa. Blað allra landsmanna getur ekki verið á borgarjaðrinum (þvílíkt bull að halda því fram að þetta sé nær miðju höfuðborgarsvæðisins!!). Starfsemi af þessu tagi á ekki að vera innan um dekkjaverkstæði og smiðjur sem fólkið í úthverfunum starfar við. Hún þarf að vera nær menningunni þar sem fágað fólk býr og starfar.

Monday, December 06, 2004

Góður árangur Björns Bjarnasonar

Það er ánægjulegt að lesa um niðustöður rannsókna á námárangri grunnskólabarna. Fyrir nokkrum árum sýndi samsvarandi könnun að íslensk grunnskólabörn stóðu jafnöldrum sínum annars staðar í heiminum langt að baki í stærðfræði. Nú er annað uppi á teningnum. Það fer ekki á milli mála að styrkri stjórn menntamála undir forystu Sjálfstæðisflokksins er hér að þakka. Sérstaklega Birni Bjarnasyni fyrrverandi menntamálaráðherra og núverandi dómsmálaráðherra.

Wednesday, December 01, 2004

Breiðholtið

Lífið kemur manni á stundum á óvart. Ég hef fyrr í þessum pistlum mínum rætt úthverfin og þá úrkynjun sem þeim fylgir. Mig undrar því að niðurstöður skoðanakönnunar sem Gallup gerði sýna að fleiri styðja r-listann en sjálfstæðismenn í borginni í öllum hverfum nema í Breiðholti. Ég hafði einmitt haldið að í úthverfunum byggi smekklaus og ómenntaður lýður. Er það ekki rétt hjá mér að þaðan heyri maður helst fréttir af morðum og eiturlyfjum? Eitthvað verð ég að endurskoða viðhorf mín. Kann að vera að ég hafi haft rangt fyrir mér? Kann að vera að þarna búi fágað og vel gert fólk? Eða stendur Reykjavíkurlistinn fyrir eitthvað annað en ég hugði? Mér líst í öllu falli mjög vel á nýjan borgarstjóra eins og ég hef áður skrifað.