Thursday, September 30, 2004

Ánægjulegt

er að hugmyndir mínar eiga sér sífellt meiri hljómgrunn í samfélaginu, nú eru það Vinstri grænir sem taka undir.

Fasteignaverð

Og enn fleiri á sama máli!

Skoðanir mínar styrktar

Nú staðfesta rannsóknir fræðimanna að ég hef haft rétt fyrir mér!

Fleiri en ég hafa áttað sig á þessu.

Slíta lögin - slíta friðinn

Ekki eru það gleðifréttir sem maður les á blogginu í dag. Ungir menn lýsa sig úr samfélagi við lögin. Er friðurinn ekki slitinn þegar menn slíta lögin.

Þessi og þessi eru mér ekki sammála um ágæti Jóns Steinars í sæti hæstaréttardómara.

Wednesday, September 29, 2004

Fleiri skoðanasystkyn

Maður eins og ég með sérstakar skoðanir á því ekki að venjast að þær eigi almennan hljómgrunn meðal samferðafólks. Það kom mér því þægilega á óvart að sjá í Fréttablaðinu í gær grein eftir Hauk Loga Karlsson þar sem hann kemst að sömu niðurstöðu og ég hér í fyrri færslum, hér og hér.

Haukur Logi segir:

"Óumflýjanlegt virðist að borgarbúar sætti sig við það sama og íbúar flestra annara [svo] borga í heiminum. Að það kosti töluverðan biðtíma á umferðaræðum að komast á einkabíl til vinnu á miðsvæðum borga"

Monday, September 27, 2004

Hver er heppilegri en Jón Steinar?

Það er gaman að fylgjast með fjörugum umræðum þessa dagana um val á hæstaréttardómara. Áður hef ég vísað á fréttir og blogg þar sem fjallað er um málið. Í dag fjallar mikilvirkur þjóðfélagsrýnir um málið.

Ég tel að í allri þessari umræðu um val á dómara sé allt of mikið fjallað um meinta "lögfræðiþekkingu" kandídatanna og hvort einn þeirra búi yfir meira eða minna af slíku. Almennt tel ég að gert sé of mikið úr svokallaðri fræðilegri þekkingu í samfélaginu.

Það sem mestu skiptir er að dómarar séu réttsýnir. Vissulega reynir á fræðilega þekkingu í lögfræði þegar unnið er við dómsstörf en þegar kemur að því að kveða upp hina endanlegu dóma er það skynsemi og dómgreind dómarans sem öllu skiptir. Ráðamenn hafa ítrekað bent á hvernig dómstólar hafa farið út af sporinu. Ástæða þess er áreiðanlega ekki sú að dómararnir séu ekki nógu vel lesnir í fræðunum heldur sú að þá skortir réttsýni.

Það er í sjálfu sér engin ástæða til þess að dómarar séu menntaðir lögfræðingar. Það er nægilegt að þeir njóti aðstoðar og ráðgjafar sérfróðra manna um þau fræðilegu atriði sem taka þarf tillit til. Þannig er eðlilegt að við réttinn starfi her lögfræðinga sem upplýsi dómarana og gefi þeim ráð en dómararnir sjálfir þurfa alls ekki að vera löglærðir.

Höfum stjórn efnahagsmála til hliðsjónar. Vissulega skiptir hagfræðiþekking þar máli. Það er hins vegar engin þörf á því að seðlabankastjóri sé menntaður hagfræðingur. Hann hefur her slíkra manna til að vinna fyrir sig. Aðalatriðið er að seðlabankastjóri sé réttsýnn maður og skynsamur. Oft veljast til starfans menn sem sýnt hafa nákvæmlega þessa eiginleika á öðrum vettvangi s.s. á vettvangi stjórnmálanna.

Þegar kemur að því að velja dómara í Hæstarétt á ekki að þurfa að taka tillit til annars en þess hvort kandídatar séu réttsýnir. Lögfræðiþekkingin er tæknilegt mál og nóg af mönnum (og e.t.v. konum) sem kunna skil á henni. Þannig þarf ekki að flækja val á hæstaréttardómara með alls kyns óskyldum hlutum eins og því hvað menn hafi birt mikið af ritrýndum fræðigreinum eða hvað þetta heitir nú allt saman. Þess í stað nægði að líta til þess hvort menn hafi sýnt skynsemi og réttsýni í störfum sínum og framgöngu. Þá væri t.d. unnt að ráða vandaða stjórnmálamenn eða menn af öðrum vettvangi í dómarastarf.

Hver er hæfari til að gegna dómarastarfi við Hæstarétt en Hannes Hólmsteinn Gissurarson? Miðað við núgildandi forsendur um val á dómara er hann útilokaður vegna þess að hann las ekki fræði við rétta deild í háskóla á sínum tíma! Allir skynsamir menn sjá hversu fáránlegt er að hann eigi ekki kost á því að dæma við Hæstarétt.

Sunday, September 26, 2004

Skoðanaskipti

Sífellt uppgötva ég betur möguleika þessa bloggs sem vettvangs skoðanaskipta. Ég sé að einhver lesanda minna (Sævar Ö) hefur gert athugsemd við skrif mín. Mér þykir það mjög ánægjulegt að hægt sé að gera athugasemdir með þessum hætti. Og gaman þykir mér að fá viðbrögð við skrifum mínum.

Ef ég skil Sævar rétt þá tekur hann heils hugar undir málflutning minn (og Kolbrúnar) en gerir athugasemd við framsetninguna sem honum þykir hrokafull.

Ég kýs að orða málflutning minn ávallt tæpitungulaust, tel það affararsælast.

Friday, September 24, 2004

Einhver ósammála

Ekki eru allir sammála okkur Kolbrúnu Halldórsdóttur um samgöngumál í höfuðborginni. Mörgum finnst þeir eiga rétt á að fá allt fyrir ekkert. Úthverfafólk sem greiðir lægri húsnæðiskostnað getur ekki ætlast til þess að það njóti sömu gæða og þeir sem búa í miðborginni. Þeir sem búa í miðborginni greiða fyrir þau gæði með hærra lóðaverði og hærra húsnæðisverði. Það er ekki endalaust hægt að leggja byrðar á meðborgarana.

Thursday, September 23, 2004

Sammála Kolbrúnu Halldórsdóttur

Fólk hefur ólíkar skoðanir. Oftast er það svo að þeir sem eru á sama máli um eitt eru sammála um annað. Og öfugt. Þannig er ég til dæmis svo gott sem alltaf ósammála Kolbrúnu Halldórsdóttur þingkonu Vinstri grænna og félögum hennar. Í gær brá hins vegar svo við að hún ritaði pistil á heimasíðu sem ég var alveg hjartanlega sammála. Þar þykir mér hún sýna bæði réttsýni og staðfestu.

"Það er ekki einfalt fyrir yfirvöld [...] að knýja fram skynsamlega stefnu [...] þegar stór hluti íbúanna gerir kröfur sem ganga í allt aðrar áttir. Þá er spurning hvort stjórnvöld eigi að sýna eftirgjöf til að afla sér vinsælda, eða halda fast við stefnu sína. Mér þykir síðari kosturinn vænlegri ..."

Það er ánægjulegt að enn skuli vera til stjórnmálamenn sem fara að skynsemi en fylgja ekki hrópum lýðsins. Málefnið sem Kolbrún gerir að umfjöllunarefni er hin mikla notkun bifreiða sem nú tröllríður samfélaginu. Nú væri í sjálfu sér ekkert við það að athuga að menn notuðu bílana sína ef ekki kæmu til þessar endalausu kröfur um að hið opinbera sjái ÖLLUM fyrir greiðri umferð innan borgarinnar. Slíkt tíðkast hvergi í hinum vestræna heimi. Það vita allir sem komið hafa á Manhattan-eyju eða til Parísar.

Að sjálfsögðu er ekki eðlilegt að fólkið í úthverfunum geti skotist rétt si svona oní miðbæ eins og ekkert sé. Miðbæir eru merkilegir, þar er kjarni menningarinnar. Þar er miðstöð stjórnsýslu, fjármála og verslunar og þar fer fram arðbærasta starfsemin í hverju samfélagi, sú starfsemi sem skapar mestan virðisauka. Lóðaverð er einnig verðmætast í miðborgum og næsta nágrenni. Miðborgir og nágrenni eru því oftast nær bústaður betri borgara sem starfa í miðborginni við verðmætaskapandi iðju. Þar búa að jafnaði þeir sem fágaðastan hafa smekkinn og kunna að njóta fagurra lista. Þetta fólk fer gjarna fótgangandi til vinnu sinnar eða ekur einungis stuttan spöl.

Nú eru hins vegar uppi endalausar kröfur í samfélaginu um að allir eigi "rétt" á að aka í miðborgina á svipstundu. Fólk í fjölbýlishúsum úthverfanna á að hafa sama aðgang að miðbænum og þeir sem þar búa. Þetta er að sjálfsögðu afleitt sjónarmið. Miðbærinn er aldrei ókeypis. Landið sem tekið er undir gatnakerfi er verðmætt. Þegar fólkið sem býr í úthverfunum gerir sér erindi í miðbæinn er ekki ósanngjarnt að það þurfi að greiða fyrir þann kostnað með smávægilegum töfum á leiðinni. Tími þessa fólk er heldur ekki eins verðmætur því það hefur að jafnaði lægri tekjur. Ekki viljum við fórna lóðum þar sem byggja má vönduð og dýr hús undir götur til þess eins að þetta fólk geti brunað þar um?? Það er ekki þjóðhagslega hagkvæmt.

Wednesday, September 22, 2004

Ólík sjónarmið

Ég er nú óðum að kynnast nýjum og nýjum bloggsíðum og þeim sjónarmiðum sem þar eru sett fram. Ekki átta ég mig alveg á þeim skoðunum sem sumir halda fram, s.s. um verkfall kennara. Ég hallast helst að því að menn séu blindaðir af eiginhagsmunum.

Tuesday, September 21, 2004

Sjálfstæður dómari

Það er ánægjulegt að það skuli að minnsta kosti vera einn starfandi dómari við Hæstarétt sem hefur sjálfstæðar skoðanir.

Það er ljóst að Jón Steinar er lagður í einelti.

Greinilegt er að fleirum en mér þykir þetta athyglisvert.

Monday, September 20, 2004

Undarlegt verkfall

Ég er undrandi yfir verkfalli sem nú er brostið á. Kennarastéttin svokallaða krefst sífellt hærri og hærri launa og ýkir þráfaldlega miklivægi sitt í samfélaginu.

Með langvinnri og vel skipulagðri sérhagsmunabaráttu hefur kennurum tekist að koma sér á ótrúlega háan stall í samfélaginu, langt um fram það sem innstæða er fyrir. Þeir skreyta sig með prófgráðum sem kenndar eru við háskóla og nota þær sem vopn í baráttu sinni við að skara eld að sinni köku og sækja fé í almannasjóði.

Hér á árum áður til sveita var það gjarna heilsutæpt fólk, aumingjar og aðrir sem af einhverjum ástæðum gátu ekki unnið, sem fengið var til að segja börnum til, kveða að og draga til stafs. Öll munum við jú eftir Ólafi Kárasyni. Engum sögum fer af því að þetta hafi ekki gengið vel. Getum við ekki snúið aftur til þessara hátta?

Er ekki ástæða til að einhverjir sem nú þiggja örorkubætur og sinna engu starfi myndu segja ungviðinu til.






Sunday, September 19, 2004

Athyglisverður rithöfundur

Eftir að ég tók að kynna mér þetta svokallaða blogg rakst ég á athyglisverða síðu. Hún er skrifuð af Ágústi nokkrum Borgþóri. Hann er ungur rithöfundur hér í borg. Ólíkt mörgum svoleiðis mönnum er hann ekki fullur af órum og villum sem oft birtast í vinstrimennsku ýmis konar. Ágúst er greinilega vandaður maður með heilbrigðar skoðanir og heldur þeim fram af festu. Ég hef ekki lesið neitt af útgefnum verkum hans en ætla svo sannarlega að gera það.

Saturday, September 18, 2004

Tekið til máls

Ég hef áttað mig á því að menn eins og ég verða að beita fyrir sig nútímatækni til að koma skoðunum sínum á framfæri