Það er gaman að fylgjast með fjörugum umræðum þessa dagana um val á hæstaréttardómara. Áður hef ég vísað á fréttir og blogg þar sem fjallað er um málið. Í dag fjallar mikilvirkur þjóðfélagsrýnir um málið.
Ég tel að í allri þessari umræðu um val á dómara sé allt of mikið fjallað um meinta "lögfræðiþekkingu" kandídatanna og hvort einn þeirra búi yfir meira eða minna af slíku. Almennt tel ég að gert sé of mikið úr svokallaðri fræðilegri þekkingu í samfélaginu.
Það sem mestu skiptir er að dómarar séu réttsýnir. Vissulega reynir á fræðilega þekkingu í lögfræði þegar unnið er við dómsstörf en þegar kemur að því að kveða upp hina endanlegu dóma er það skynsemi og dómgreind dómarans sem öllu skiptir. Ráðamenn hafa ítrekað bent á hvernig dómstólar hafa farið út af sporinu. Ástæða þess er áreiðanlega ekki sú að dómararnir séu ekki nógu vel lesnir í fræðunum heldur sú að þá skortir réttsýni.
Það er í sjálfu sér engin ástæða til þess að dómarar séu menntaðir lögfræðingar. Það er nægilegt að þeir njóti aðstoðar og ráðgjafar sérfróðra manna um þau fræðilegu atriði sem taka þarf tillit til. Þannig er eðlilegt að við réttinn starfi her lögfræðinga sem upplýsi dómarana og gefi þeim ráð en dómararnir sjálfir þurfa alls ekki að vera löglærðir.
Höfum stjórn efnahagsmála til hliðsjónar. Vissulega skiptir hagfræðiþekking þar máli. Það er hins vegar engin þörf á því að seðlabankastjóri sé menntaður hagfræðingur. Hann hefur her slíkra manna til að vinna fyrir sig. Aðalatriðið er að seðlabankastjóri sé réttsýnn maður og skynsamur. Oft veljast til starfans menn sem sýnt hafa nákvæmlega þessa eiginleika á öðrum vettvangi s.s. á vettvangi stjórnmálanna.
Þegar kemur að því að velja dómara í Hæstarétt á ekki að þurfa að taka tillit til annars en þess hvort kandídatar séu réttsýnir. Lögfræðiþekkingin er tæknilegt mál og nóg af mönnum (og e.t.v. konum) sem kunna skil á henni. Þannig þarf ekki að flækja val á hæstaréttardómara með alls kyns óskyldum hlutum eins og því hvað menn hafi birt mikið af ritrýndum fræðigreinum eða hvað þetta heitir nú allt saman. Þess í stað nægði að líta til þess hvort menn hafi sýnt skynsemi og réttsýni í störfum sínum og framgöngu. Þá væri t.d. unnt að ráða vandaða stjórnmálamenn eða menn af öðrum vettvangi í dómarastarf.
Hver er hæfari til að gegna dómarastarfi við Hæstarétt en Hannes Hólmsteinn Gissurarson? Miðað við núgildandi forsendur um val á dómara er hann útilokaður vegna þess að hann las ekki fræði við rétta deild í háskóla á sínum tíma! Allir skynsamir menn sjá hversu fáránlegt er að hann eigi ekki kost á því að dæma við Hæstarétt.
Monday, September 27, 2004
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
I inclination not agree on it. I think precise post. Particularly the title attracted me to read the sound story.
Good post and this enter helped me alot in my college assignement. Gratefulness you as your information.
Post a Comment