Sunday, October 03, 2004

Afhelgun samfélagsins

Vikan var annars að mörgu leyti sorgleg þegar litið er til atburða vikunnar. Á föstudag kom Alþingi saman, að öllu jöfnu er það hátíðlegur dagur í vitund þjóðarinnar. En svo var ekki að þessu sinni.

Hópur guðleysingja gerði sér leik að því að rifja upp þann sorglega atburð þegar ógæfumaður hér í borg sletti skyri á þingheim, biskup og forseta fyrir mörgum árum. Þessi ungi maður lýsir af fullkomnu blygðunarleysi öllum smáatriðum hryðjuverksins.

En þetta var því miður ekki það eina sorglega við þennan dag. Forseti Alþingis gerði réttilega að umfjöllunarefni í setningarræðu sinni þá aðför að þinginu sem átti sér stað á liðnu sumri. Þar gagnrýndi hann það að maður utan þingsins reyndi að taka sér guðlegt vald og setja ofaní við réttkjörið þing þjóðarinnar. Bregður þá svo við að nokkrir andstöðuþingmenn standa upp og ganga úr þingsal. Sem betur fer höfum við ennþá Morgunblaðið til að setja ofaní við menn sem haga sér með þessum hætti. Hvers konar þingmenn eru það sem ekki standa með forseta sínum þegar hann bregst til varnar þinginu sem þeir sitja? Það eru menn lítilla sanda og lítilla sæva.

Þessir tvær sorlegu atburðir föstudagsins eiga rætur að rekja til afhelgunarinnar sem átt hefur sér stað í samfélaginu. Ungir menn afneita Guði og maður utan þingsins þykist vera guð.

2 comments:

Anonymous said...

Hvað er sorglegt við að guði sé afneitað? Ég get ekki séð betur en að slíkt sé hið besta mál.

Mætti svo sem gerast oftar.

Kveðja,
Snær Gíslason

Anonymous said...

Þarf ekki einhverjum að verða vont af til þess að gjörningur geti með nokkru móti kallast hryðjuverk?

Guðlast: Glæpur án fórnarlambs.

Með kveðju,
Snær Gíslason