Tuesday, October 19, 2004

Gamansemi

Það er ánægjulegt að vera þátttakandi í þeirri opnu umræðu sem fram fer á netinu. Hér geta menn skipst á skoðunum, "linkað" hverjir á aðra svo úr verður deigla hugmynda.

Nokkur viðbrögð hafa verið við skrifum mínum og kann ég því vel. Sumir hafa gert kímni mína eða "húmor" að umtalsefni. Til dæmis þessir, þessi, þessi og þessi gerði grín að umtalsefni í "kommenti" hjá mér um daginn.

Nú hef ég löngum vitað að ég er mikill "húmoristi", um það geta gamlir skólabræður vitnað og svo náttúrulega konan mín og sonurinn. Ég get setið tímunum saman og sagt gamansögur. Það kom mér nokkuð á óvart að menn fóru að gera kímni mína að umtalsefni, ég taldi mig ekki hafa farið neitt út í þá sálma á þessum vettvangi.

Mér sárnaði því nokkuð þegar mér skildist að einhverjir teldu að skrif mín væru einhvers konar grín. Vissulega eiga skoðanir eins og mínar ekki mikinn hljómgrunn í samfélaginu. Þó finn ég samhljóm með ýmsum t.d. Hauki Loga Karlssyni, Kolbrúnu Halldórsdóttur og íhaldsmanninum unga sem gert hefur samfélagslega úrkynjun að umtalsefni. Ég skil ekki af hverju sumir telja að ég sé að grínast. Eru skoðanir eins og mínar ekki teknar alvarlegar en það? Telja menn ef til vill að dómsmálaráðherrann sé líka að grínast? Er fokið í öll skjól?