Saturday, October 16, 2004

Agaleysi og illkvittni

Fjölskyldan fór í Smáralindina í gær. Úff. Þarna var öðru vísi fólk en maður sér og umgengst dags daglega. Það sem blasti við okkur þar voru hóparnir af illa hirtum börnum og unglingum, sennilega úr nærliggjandi úthverfum, sem virtust vera í fullkomnu reiðileysi í kennaraverkfallinu. Þau áttu það sameiginlegt að hárið var illa hirt og fötin sem þau gengu í voru furðuleg. Þótt fólk búi e.t.v. ekki við mikil efni þá finnst mér að það geti a.m.k. snyrt börnin sín áður en það sendir þau út. Einnig áttu börnin greinilega margt ólært um mannasiði.
Við áttum ekki langa dvöl þarna (þó of langa) og ég þvertók fyrir að konan keypti þessi móðinsföt á strákinn.


Í Fréttablaðinu í gær á blaðsíðu tvö var athyglisverð frétt með fyrirsögninni "Agaleysi og eltingaleikur í Egilshöll". "Egilshöll" er einhvers konar afþreyingarhús í útjaðri bæjarins sem hefur verið í fréttum undanfarið vegna áfengissölu. Í fréttinni segir frá aga- og reiðileysi barna vegna kennaraverkfallsins. Börnin brúki munn, taki ekki tilsögn og skemmi muni. Svo fast kvað að þessu hátterni að kalla þurfti til lögreglu til að fjarlægja nokkra pörupilta. Þetta kemur heim og saman við reynslu mína í Smáralindinni. Hér sjáum við dæmi um samfélagsúrkynjunina sem ég hef gert að umtalsefni áður ásamt fleirum.

Dómsmálaráðherrann ritar á heimasíðu sína skeleggur að vanda. Hann gerir að umtalsefni illkvittnina sem nýr hæstaréttadómari mætir hvarvetna. Nú var það Pétur Þorsteinsson "prestur" hjá "Óháða söfnuðinum" sem reyndi að ata nýja dómarann auri. Annars voru einhver fleiri níðskrif í Morgunblaðinu um dómarann fyrr í vikunni sem ég man ekki lengur hver voru og ráðherran sennilega ekki heldur fyrst hann minnist ekki á þau.

1 comment:

Anonymous said...

Ég fagna því að lesa skoðanir þínar. Þær eiga því miður sjaldnast upp á pallborðið nú á dögum. Fólk sem heldur skoðunum af þessu tagi fram er oftast nær púað niður, því miður. Ég hvet þig til að birta skrif þín í dagblöðum.