Monday, October 25, 2004

Móbíl þjóð

Íslendingar eru móbíl þjóð. Ég kysi heldur að hún væri stabíl. Það væri betra.
Hugum að sögunni. Iðnbyltingin ölli mikilli röskun á samfélaginu og högum fólks. Vissulega hafði hún ýmsa kosti, því verður ekki neitað, en fólk virðist ótrúlega fljótt að gleyma því illa sem af henni leiddi.

Áður en þessi „bylting“ reið yfir sat fólk að búum sínum og sinnti sínu. Því fylgdi sjaldnast flækingur og upplausn. Með iðnbyltingunni flosnaði fólk upp af búum sínum og flutti í soll borganna. Það líf sem þar var lifað veitti ekki ákjósanlega siðferðilega umgjörð. Þar seldu menn vinnuafl sitt hæstbjóanda í stað þess að standa sína plikt gagnvart búinu og landeiganda. Borgirnar urðu enda gróðrarstía siðspillingar og ólifnaðar. Þetta þekkjum við Íslendingar. Menn flosnuðu upp úr sveitinni og gerðust tómthúsmenn með tilheyrandi upplausn og siðspillingu. Lífið og starfið í sveitinni myndað umgjörð sem hlúði að siðlegri breyttni. Sennilega hefur það ýtt frekar undir þessa þróun hvað Íslendingar hafa ávallt verið móbílir. Þannig áttu menn það til að flakka yfir hálft landið til þess eins að fara á vertíð. Ákjósanlegra væri að menn hefðu verið stabílir og staðfastir.

Í Evrópu sneiddu menn hjá ýmsum vanköntum iðbyltingarinnar. Þar höfðu borgir þegar fest rætur áður en iðnvæðingin hófst. Borgir voru skipulagðar með þeim hætti að hverfin sem verkamennirnir bjuggu í voru í námunda við verksmiðjurnar. Verkamennirnir gengu því hæglega til vinnu sinnar. Þannig gátu heilu kynslóðirnar lifað án þess að þurfa að ferðast svo mikið sem í örfárra kílómetra radíus frá heimili sínu allt sitt líf. Þetta tryggði festu í samfélagsgerðinni og hindraði upplausn. Slátrarinn, bakarinn og grænmetiskaupmaðurinn sinntu viðskiptum á torgum hvert fólkið úr nágrenninu sótti bjargir sínar. Ekkert var um óþarfa flandur og lausung. Þannig var þetta langt fram á 20. öldina. Þá tók ógæfan að ríða yfir. Einkabíllinn svokallaði varð nauðsynlegur hlutur á hverju almúgaheimili. Fólki dugði þá ekki lengur að eiga sitt líf í sínu hverfi heldur tók að flandra um. Ferðast í aðra borgarhluta og á ströndina með tilheyrandi lausung.

Lausungin hefur hins vegar verið systir okkar Íslendinga alla tíð. Þvælingur og förumennska hefur því miður alltaf einkennt okkar samfélag. Þetta birtist ekki hvað síst í því hvernig bærinn okkar, hún Reykjavík, hefur verið togaður og teygður á alla enda og kanta. Þetta hefur svo leitt til samfélagslegrar úrkynjunar.

2 comments:

Anonymous said...

Já betra væri að fólk væri bara í sínum afdal

Anonymous said...

Ég er sammála. Það er allt of mikið um óþarfa fólksflutninga.