Nú er grunnskólavandinn leystur, svona að nafninu til að minnsta kosti. Það er þó varla hægt að kalla þetta með réttu "lausn". Til þess hefur þessi samningur of slæmar afleiðingar fyrir samfélagið eins og ég hef áður bent á.
Ég held að það þurfi að nálgast vandann frá öðru sjónarhorni. Sum sveitarfélög eru eðlilega mun betur sett fjárhagslega en önnur. Þar býr fólk sem stundar verðmætaskapandi vinnu, greiðir hátt útsvar og há fasteignagjöld af dýrum eignum sínum. Það er því ekki eðlilegt að þetta fólk þurfi að líða fyrir það, með sífelldum verkföllum hjá sínum börnum, að önnur sveitarfélög geti ekki greitt kennurum laun.
Ég tel að réttast væri að fasteignagjöld og útsvar í hverju skólahverfi verði notað til rekstrar viðkomandi skóla. Í sumum hverfum býr fólk með góðar tekjur og á verðmætar fasteignir, fyrir vikið greiðir það hærra útsvar og fasteignagjöld. Það er ekki nema sanngjarnt að fólkið fái að njóta þess. Þessir skólar gætu borgað sínum kennurum betri laun.
Þarfir fólks eru mismunandi og við þurfum alltaf að huga að því í skipulagi að viðhalda ákveðnu jafnvægi. Sumt fólk kýs að búa í ódýru húsnæði í úthverfum, slíkt fólk leggur síður upp úr menntum svo sem einkunnir á samræmdum grunnskólaprófum sína, það er því engin þörf á að eyða miklu fé til skólahalds á slíkum stöðum. Aðrir kjósa að búa á betri stöðum, í hringiðu menningar og lista, og leggja meira upp úr menntun. Þar eru fasteignir verðmætar og þar greiðir fólk hærra útsvar. Þar eru því fyrir hendi fjármunir til að greiða kennurum nægjanleg laun til að þeir leggi ekki þráfaldlega niður vinnu. Á öðrum stöðum, þar sem útsvarstekjur eru lægri og verðmæti fasteigna minna og því minna fé til ráðstöfunar til skólanna, mætti ráða fólk sem sætti sig við heldur lægri laun enda væru ekki gerðar sömu kröfur.
Wednesday, November 17, 2004
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment